„Sýnum þessu börnum og ungmennum nærgætni“

Verkfall kennara í MR hefst í næstu viku að óbreyttu.
Verkfall kennara í MR hefst í næstu viku að óbreyttu. mbl.is/Sigurður Bogi

Foreldarar nemenda í Menntaskólanum í Reykjavík lýsa þungum áhyggjum af áhrifum yfirvofandi verkfalls kennara á nemendur skólans. Þetta kemur fram í ályktun sem foreldrafélag skólans sendi frá sér nú í kvöld.

Eins og fram hefur komið mun verk­fall kenn­ar­a hefjast 18. nóv­em­ber og standa til 20. des­em­ber, nái samn­inga­nefnd­ir Kenn­ara­sam­bands Íslands og Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga ekki að semja fyr­ir þann tíma. 

„Við skiljum og virðum réttmætar kröfur kennara í kjarabaráttu sinni. Mikilvægt er að staðið sé við gerða samninga og nauðsynlegt að sýna kennurum og starfi þeirra virðingu. Þeir hafa stuðning okkar enda framlag þeirra ómetanlegt,“ segir í ályktun félagsins sem send er á þrjá ráðherra, formann Kennarasambandsins, formann samninganefndar og stjórnendur MR.

Getur haft verulega neikvæð áhrif á skólagönguna

„Verkfallsvopninu er hins vegar að þessu sinni beint af þunga gagnvart aðeins hluta nemenda, þar á meðal nemendum Menntaskólans. Þessir nemendur geta hvorki haft áhrif á lausn deilunnar eða vikið sér undan henni en hún getur haft verulega neikvæð áhrif á skólagöngu þeirra og vellíðan. Eins og fram kemur í úrskurði Umboðsmanns barna[1]: „Þó verkfallsrétturinn sé óumdeildur verður ekki litið fram hjá því að börn eru skólaskyld og þau eiga stjórnarskrárvarinn rétt til menntunar og fræðslu. Að mati umboðsmanns barna er börnum í þeim skólum sem eru í verkfalli mismunað hvað varðar rétt þeirra til menntunar“. 

Stjórnin leggur áherslu á orð umboðsmanns barna og bendir á alvarlegar afleiðingar verkfallsins sem getur orðið til þess að „viðkomandi nemendur verði af rétti sínum til menntunar og standi þar af leiðandi jafnöldrum sínum ekki jafnfætis“. Fjarvera frá skóla getur aukið líkur á að börn þrói með sér skólaforðun og fjarveran getur einnig haft „óafturkræfar afleiðingar fyrir börn að geta ekki sótt skóla og fyrir sum börn er skólinn griðastaður sem veitir öryggi sem þau njóta ekki annarsstaðar“. Sýnum þessu börnum og ungmennum nærgætni,“ segir þar ennfremur.

Segja foreldrarnir að það sé skýlaus krafa þeirra að samningsaðilar vinni hratt og markvisst að lausn deilunnar þannig að fórnarkostnaðurinn leggist ekki á nemendur. „Þótt úrlausn kjarasamningsákvæða frá 2016 sé flókið mál og nái til fleiri hópa en kennara er nauðsynlegt að finna lausn á því. Viðræður milli aðila hafa því miður ekki enn skilað þeim árangri sem stefnt var að. Við hvetjum samningsaðila til að leita allra leiða til að binda sem fyrst enda á þessa deilu og hlífa þannig nemendum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka