Taldi betra fyrir drengina að deyja

Konan hlaut 18 ára dóm fyrir að drepa 5 ára …
Konan hlaut 18 ára dóm fyrir að drepa 5 ára son sinn og tilraun til að drepa eldri son sinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Móðir sem fundin var sek um að hafa banað sex ára syni sínum og gert tilraun til að bana eldri syni sínum sem var 12 ára bar fyrir dómi að hún hefði verið mjög örvingluð og ekki séð neina aðra leið í stöðunni en að taka líf þeirra. Hún hefði talið betra fyrir drengina að deyja en að þurfa að þjást í þessum heimi án stuðnings frá móður sinni, en hún vildi sjálf einnig deyja.

Þá hafi yngri drengurinn farið til himna, eða „í góða heiminn“ og hún hafi verið hrædd um að sá eldri myndi enda í helvíti frekar en í himnaríki.

Játaði en sagðist ekki sakhæf

Þetta er meðal þess sem kemur fram í dómi Héraðsdóms Reykjaness, en dómur yfir móðurinni var birtur í dag eftir að dómur féll í síðustu viku. Var konan sakfelld fyrir manndráp, tilraun til manndráps og brot í nánu sambandi. Hlaut hún 18 ára dóm fyrir brot sín.

Þrátt fyrir andlegt ójafnvægi var talið að hún hefði haft einhverja stjórn og innsæi í gjörðir sínar og því hafi hún ekki stjórnast af geðrofi og því hafi verknaðurinn ekki verið í ákafri geðshræringu, en slíkt getur leitt til refsilækkunar.

Konan játaði manndráp og tilraun til manndráps, en krafðist sýknu á grundvelli þess að hún væri ekki sakhæf. Sem fyrr segir hafnaði dómurinn því, meðal annars eftir mat og yfirmat geðlækna.

Áfallasaga á flótta

Fjölskyldan kom til Íslands sem flóttafólk og hafði konan verið á flótta í þremur löndum áður en þau fengu dvalarleyfi hér á landi. Höfðu þau dvalið hér í um fjögur ár. Er meðal annars farið fyrir hvernig hún hafi misst nákominn einstakling á þeim tíma og verið aðskilin frá eldri syni sínum þegar hann var tveggja ára og þar til hann var fjögurra ára. Þá hafi þau ekki fengið dvalarleyfi í því landi þar sem fjölskylda hennar og elsti sonur búi.

Er því lýst að búseta hennar hér á landi hafi verið mjög erfið með litlum stuðningi, ófullnægjandi aðstöðu fyrir fjölskylduna og að hún hafi mætt miklum fordómum. Í mati sem lagt var fyrir dóminn kemur fram að sterkar vísbendingar séu um að konan hafi verið með áfallastreituröskun, en auk þess hafi hún þjáðst af endurteknu þunglyndi og kvíðaeinkennum, auk áráttu- og þráhyggjulíkra einkenna. Hins vegar bendi ekkert til sögu alvarlegra geðsjúkdóma sem geti skýrt verknaðinn sem hún játaði.

Taldi sig vera með krabbamein

Þá kemur einnig fram að konan hafi virst telja sig hafa krabbamein þótt læknar hafi sagt henni annað. Hafi móðir hennar látist úr krabbameini og hafi konan verið hrædd um að deyja líka af völdum krabbameins. Hafi hún mikið velt fyrir sér hvað yrði um drengina ef hún félli frá og því hugsað um að taka eigið líf og líf drengjanna.

Eldri sonurinn vildi ekki deyja

Konan hringdi í Neyðarlínuna að morgni dags miðvikudagsins 31. janúar. Tilkynnti hún þar um andlát drengsins, en eldri sonurinn var þá farinn í skólann. Þegar lögregla kom á vettvang voru endurlífgunartilraunir hafnar en ljóst var að hann var látinn þegar sjúkraflutningsmenn mættu. Var í raun ljóst að drengurinn hafði verið látinn í talsverðan tíma þegar lögregla kom á vettvang. Játaði konan við lögreglu að hafa orðið drengnum að bana og með látbragði sagðist hún meðal annars hafa kæft hann.

Sagðist konan hafa tekið drenginn úr hjónarúminu um klukkan eitt um nóttina og farið með hann fram í stofu. Þar hafi hún kæft hann með því að setja kodda yfir vit hans. Hún skipti því næst um föt á honum.

Konan fór í kjölfarið aftur inn í herbergið þar sem eldri sonurinn svaf. Vaknaði hann við að hún hélt fyrir vit hans og náði að koma sér undan henni. Spurði móðirin þá hvort hann vildi ekki deyja áður en hann yrði 13 ára því þá færi hann í „góða heiminn“. Sonurinn svaraði því til að hann vildi það ekki.

Óttaðist að hann færi ekki til himna

Fyrir dómi lýsti drengurinn því að hann hefði verið hræddur um að deyja og öskrað á arabísku og beðið móður sína að hætta. Hún hafi fyrst ekki sagt neitt, en svo spurt hvort hann væri viss um að vilja ekki deyja. Lýsti hann því meðal annars að móðir hans hafi sagst hafa áhyggjur af því að hann myndi ekki fara með bænir þegar hann yrði eldri og að þeir sem ekki gerðu það eftir ákveðinn aldur myndu fara til helvítis. Hins vegar gæti hann farið til himnaríkis ef hann myndi deyja fyrir þann aldur.

Ætlaði sonurinn að hringja í lögreglu, en móðirin sagðist sjálf ætla að gera það. Sagðist eldri sonurinn hafa séð yngri bróður sinn í sófanum í stofunni. Eftir þetta allt sofnaði hann aftur, en um morguninn sá hann bróður sinn enn í sófanum, en móðir hans sagði hann vera veikan og ekki fara í skólann.

Í skýrslutöku hjá lögreglu og fyrir dómi lýsti konan miklum kvíða, þreytu og stressi yfir aðstæðum sínum. Kom meðal annars fram í skýrslu matsmanna að hún hafi verið undir miklu álagi og nýlega skilin. Hafi áhyggjur hennar meðal annars verið af framfærslu og húsnæðismálum. Þá lýsti hún slæmu sambandi sínu við barnsföður sinn og fyrrverandi eiginmann, en hún sagðist meðal annars ekki hafa mátt fara í skóla eða á æfingu og bara átt að vera heima. Kemur fram í dóminum að hún hafi í þrígang farið frá honum en svo farið til hans aftur innan viku.

Félagslega einangruð án tengslanets

Kemur fram í dóminum að meðal annars þar sem móðirin hafi verið félagslega einangruð og án tengslanets og ráði illa við að vera einstæð móðir hafi hún upplifað sig nauðbeygða til að taka saman við fyrrverandi eiginmann sinn aftur en að hann hafi ekki viljað það, enda kominn með aðra kærustu.

Fyrir dómi sagði eiginmaðurinn fyrrverandi að hann hafi rætt við hana daginn áður, hún hafi þá sagt honum að drengirnir myndu ekki fara í skólann daginn eftir. Annað hafi verið eðlilegt í samtali þeirra. Þá sagði hann konuna hafa lítið sjálfstraust, ætti erfitt með að kynnast fólki og væri oft reið yfir málunum. Staðfesti hann að sambandið hefði verið stormasamt, en þau hafi meðal annars flúið heimalandið og svo komið til Íslands. Hann hafi hins vegar fengið nóg eftir komuna til Íslands og sagt að þau yrðu að skilja.

Sagðist hann ekki vita til þess að hún hafi áður beitt drengina ofbeldi, en þó hafi hún öskrað á þá. Þá lýsti hann því einnig að hún hafi óskað eftir því að hann myndi taka forsjá drengjanna því hún vildi flytja og losna undan þeirri ábyrgð.

Brot konunnar sönnuð og fær að stjórna gerðum sínum

Í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að það teljist sannað að konan hafi drepið yngri soninn og gert tilraun til að drepa þann eldri, auk brots í nánu sambandi. Ekki er fallist á að hún hafi verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum þegar hún banaði syni sínum og telur dómurinn að hún hafi út frá öðrum gjörðum hennar þessa nótt og morguninn eftir að hún hafi getað borið skynbragð á eðli þeirra afbrota sem hún framdi. Þá hafi hún verið fær um að stjórna gerðum sínum þegar hún kæfði yngri drenginn og reyndi að gera tilraun til að kæfa þann eldri.

Er meðal annars vísað til þess að hún hafi borið yngri drenginn úr hjónaherberginu, þar sem eldri drengurinn svaf, einnig til að deyða hann fram í stofu áður en hún gerði tilraun til að deyða þann eldri.

Ekki gert í ákafri geðshræringu

Jafnframt er talið að hún hafi haft einhverja stjórn á innsæi í gjörðir sínar og því væri erfitt að segja að hún hafi algjörlega stjórnast af geðrofi, jafnvel þótt hún hafi lýst því yfir að hún hafi verið örvingluð og séð þetta sem einu leiðina. Er því ekki fallist á að hún hafi framið verknaðinn í ákafri geðshræringu.

Er meðal annars hafnað í dóminum að konan hafi heyrt skipandi raddir um að hún ætti að bana drengjunum. Hafði hún bæði hjá lögreglu sagt að svo væri ekki og geðlæknar talið slíkt ólíklegt, en fyrir dómi sagði hún slíkar raddir hafa leitað á sig áður en hún drap drenginn.

Sem fyrr segir var konan sakfelld fyrir brot sín og hlaut 18 ára dóm.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka