Telja sig geta rekið Grindavík til 2026

Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segir stjórnsýslu bæjarins telja sig …
Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segir stjórnsýslu bæjarins telja sig geta rekið bæinn fram að næstu sveitarstjórnarkosningum. Samsett mynd

Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segir það reglulega hafa verið rætt í stjórnsýslu bæjarins hvort tímabært sé að sameinast öðrum sveitarfélögum.

Í Grindavíkurskýrslu forsætisráðuneytisins sem birt var á dögunum kemur m.a. fram að Grindavík geti ekki sinnt lögbundinni þjónustu sinni að óbreyttu. Því þurfi að taka ákvörðun um framtíð bæjarins. Í dag eru um 100 manns sem búa í bænum en á sama tíma eru 1.600 skráðir með lögheimili í Grindavík.

„Einn möguleikinn er sá að það gæti komið til sameiningar við önnur sveitarfélög,“ segir Fannar.

Með stuðningi jöfnunarsjóðs 

Hann segir hins vegar að bærinn hafi sýnt fram á það með „trúverðugum gögnum" að hann geti rekið sig til ársins 2026 þegar næstu sveitarstjórnarkosningar fara fram.

„Með stuðningi í gegnum jöfnunarsjóð þá getur bærinn rekið sig út næsta ár og inn í 2026. En framtíðin er svo óljós að öllu leyti og við erum með ýmsar sviðsmyndir undir sem við erum sífellt að fara yfir með ráðuneytunum,“ segir Fannar.

Spurður segir Fannar það að sínu viti eðlilegt að horft sé til kosninga árið 2026 upp á að kjósa um sameiningu við annað sveitarfélag.

„Það þarf að skoða stöðuna á þeim tíma. Mögulega þarf að kjósa um sameiningu þá. Það er þrýst á það hjá ríkisvaldinu að sameina sveitarfélög og þetta er það sem hefur verið rætt í stjórnsýslunni,“ segir Fannar.

Ekki rætt um að gera það fyrr 

Hann segir það ekki hafa verið rætt hjá bænum að taka þessa ákvörðun fyrr en að til kosninga kemur.

„Ef eldgosunum myndi ljúka fljótlega þá væri hægt að fara að byggja upp bæinn. Það er náttúrlega það sem við viljum gera þó tíminn verði að leiða það í ljós hvenær það gæti orðið,“ segir Fannar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka