Íbúasamtök Grafarvogs efna til fundar seinna í dag um fyrirhuguð þéttingaráform í Grafarvogi. Allir frambjóðendur í Reykjavík norður ásamt borgarfulltrúum minnihlutans hafa boðað komu sína en það „er færra um þá sem eru í meirihlutanum.“
Þetta segir Elísabet Gísladóttir, formaður íbúasamtaka Grafarvogs, í samtali við mbl.is.
„Við erum að berjast gegn ofurþéttingu í hverfinu,“ segir hún og nefnir sérstaklega að til standi að byggja á grænum svæðum og ósnortinni náttúru.
Fundurinn hefst klukkan 17 í Rimaskóla og er áætlaður til klukkan 19.
Miklar breytingar horfa við Grafarvogsbúum á komandi misserum en reisa á 15.000 manna byggð í Keldnalandi, þétta byggð í Grafarvogi og uppbygging á Sundabraut stendur einnig til.
„Miðað við íbúamagn og fjölda íbúða þá eru innviðir ekki að bera það, það er alveg ljóst. Umferðarmannvirkin eru þegar sprungin og við viljum ekki horfa upp á annað skipulagsslys eins og við erum búin að horfa upp á í Gufunesi, þar sem eru engin bílastæði og bílum er reynt að koma fyrir hvar sem er. Það hindrar bæði umferð gangandi og hjólandi,“ segir Elísabet.
Hún segir að borgarstjóri, formaður borgarráðs og forseti bæjarstjórnar hafi ekki boðað komu sína. Hún segir að Einari Þorsteinssyni borgarstjóra hafi verið sérstaklega boðið á fundinn.