100 milljónir aukalega í forvarnarstarf með börnum

Barnaverndartilkynningum í Mosfellsbæ fjölgaði um 50 prósent fyrstu tíu mánuði …
Barnaverndartilkynningum í Mosfellsbæ fjölgaði um 50 prósent fyrstu tíu mánuði ársins. Samsett mynd/Sigurður Bogi/Kristinn

Mosfellsbær hyggst veita aukalega rúmum 100 milljónum króna í forvarnarstarf og aðgerðir fyrir börn og ungmenni á næsta ári. Ákvörðunin kemur í kjölfar mikillar umræðu í samfélaginu í tengslum við aukið ofbeldi meðal ungmenna, hnífaburð og fleira. 

Þá fjölgaði barnaverndartilkynningum í Mosfellsbæ um tæp 50 prósent fyrstu 10 mánuði ársins og leitarbeiðnir til lögreglu vegna barna hafa aldrei verið fleiri.

Flestar tilkynningarnar til barnaverndar snúa að áhættuhegðun barna, eða 49 prósent. Slíkum tilkynningum hefur fjölgað verulega og fóru þær úr 196 árið 2023 í 325 fyrstu 10 mánuði ársins.

Þar á eftir koma tilkynningar um börn sem beita ofbeldi sem voru 26 prósent allra tilkynninga til barnaverndar fyrstu 10 mánuði ársins.

Samhliða aukafjárveitingunni verður ráðist átaksverkefnið Börnin okkar sem felur í sér 27 aðgerðir sem gripið verður til. Átakið var kynnt á blaðamannafundi í morgun.

Mestur peningur í snemmtækan stuðning

Gert er ráð fyrir að 25 milljónir fari í almennar forvarnir, 42 milljónir í snemmtækan stuðning og 33 milljónir í styrkingu barnaverndar.

Almennar forvarnir munu meðal annars fela í sér hækkun á frístundastyrk, lengri opnunartíma í íþróttahúsi og sundlaugum, námskeiðahaldi fyrir foreldra, samskiptasáttmála á milli heimilis og skóla, fræðslu og þjálfun starfsfólks, reglum varðandi símanotkun í skólum, eflingu foreldrasamstarfs og aðstöðu fyrir rafíþróttir.

Snemmtækur stuðningur mun fela í sér aukna ráðgjöf sálfræðinga og viðveru þeirra í skólum, sérhæfður málastjóri verði ráðinn til að vinna að samþættingarmálum í farsældarteymi, aukið framboð á íþróttum fyrir börn með sértækar þarfir, að sett verði á laggirnar skólaforðunarteymi og í boði verði opnir símatímar hjá félagsráðgjafa og sálfræðinga fyrir foreldra.

Styrking barnaverndar felur í sér eflingu stuðningsúrræða, ráðinn verði inn sérstakur unglingaráðgjafi, hegðunarteymi verði sett á laggirnar og samstarf á milli skóla og barnverndar verði eflt.

Fjallað um eineltis- og ofbeldismál í Helgafellsskóla

Í haust var töluvert fjallað um nokkur mál sem komu upp í Helgafellsskóla í Mosfellsbæ, sem tengdust einelti og ofbeldishegðun barna.

Móðir barns í 2. bekk greindi frá því að hún hefði þurft að taka dóttur sína úr skólanum eftir að bekkjarbróðir hennar beitti hana ítrekað ofbeldi og viðhafði líflátshótanir í hennar garð. Steininn hafi hins vegar tekið úr þegar drengurinn mætti með hníf í skólann og sagðist ætla að drepa stúlkuna. Móðirin gagnrýndi viðbrögð skólans harðlega og aðgerðarleysi og sagðist hafa mætt kuldalegu og dónalegu viðmóti frá skólastjóra.

Þá greindi móðir þriggja drengja sem voru í Helgafellsskóla frá því að hún hefði tekið þá úr skólanum. Sagði hún þá hafa orðið fyrir einelti og að einn drengjanna hefði talað um að kennari hefði beitt hann ofbeldi. Gagnrýndi móðirin einnig viðbrögð skólastjórnenda og úrræðaleysi.

Önnur móðir til viðbótar steig fram og lýsti svipuðum viðbrögðum skólans þegar hún reyndi að ítrekað að tilkynna um einelti sem sonur hennar varð fyrir um árabil. Drengurinn glímdi við mikinn kvíða og vanlíðan vegna þeirra stöðugu ógnar sem hann sat undir í skólanum og greip eitt sinn til dúkahnífs til að verja sig. Móðirin flutti drenginn á endanum í annan skóla.

Sviðsstjóri fræðslu- og frí­stunda­sviðs Mos­fells­bæj­ar sagði í tengslum við umfjallanir mbl.is að öll gagnrýni á skóla- og frístundaþjónustu væri tekin alvarlega. Farið væri yfir hvort eitthvað hefði farið úrskeiðis og hvað mætti bæta. Þá sagði hún að hún vissi ekki til þess að óvenju mikið væri um einelti í Helgafellsskóla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert