Aðgerðir sem allir nema glæpastarfsemi græði á

Brotastarfsemi er orðin slík að umfangi að lögreglan getur ekki …
Brotastarfsemi er orðin slík að umfangi að lögreglan getur ekki unnið gegn henni með sama hætti og gert hefur verið fram til þessa. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Formenn landsambanda lögreglumanna á Norðurlöndunum krefjast margþættra aðgerða til að bregðast við ógnvekjandi þróun og aukinni brotatíðni.

Lögregluyfirvöld og stjórnmálafólk verði að taka réttar ákvarðanir svo að lögregla á Norðurlöndum geti með sameiginlegum kröftum stöðvað það ástand sem viðgengst hefur í tengslum við skipulagða brotahópa og skipulagða glæpastarfsemi.

Á því myndu allir græða nema glæpastarfsemin.

Barn myrðir annað barn

Í sameiginlegri tilkynningu segja þeir svokallað sænskt ástand orðið að norrænum vanda. Í Danmörku hafi ástand öryggismála verið alvarlegt lengi og hótunarmál tíð. Glæpagengi fremji morð, árásir ungra brotamanna hafi færst í aukana og tengingar sé þar að finna við sænska hópa.

Þróunin sé á svipaðan veg í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Fyrr á þessu ári hafi finnska lögreglan lagt hald á 42 kíló af amfetamíni sem hafði verið smyglað frá Svíþjóð ásamt töluverðu magni af skotvopnum og sprengiefni.

„Í Svíþjóð horfum við upp á barn sem myrðir annað barn, við sjáum barsmíðar og sprengingar. Hótanir og ógnanir fylgja skipulagðri glæpastarfsemi sem eykst stöðugt,“ segir í tilkynningunni.

Þróunin er alvarleg á Norðurlöndunum.
Þróunin er alvarleg á Norðurlöndunum. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Manndrápsmál og mansal á Íslandi

„Hér á Íslandi hefur metfjöldi manndrápsmála komið upp undanfarið. Jafnframt hafa komið upp mjög stór mansalsmál, auk þess sem hótanir og átök milli glæpahópa setja almenning í hættu. Loks hafa lögreglumenn í vaxandi mæli orðið fyrir hótunum og eignaspjöllum.“

Skipulögð glæpastarfsemi leggi undir sig nýja markaði í verslun sinni og viðskiptum með fíkniefni og vopn, smygl á fólki og vændisstarfsemi, alvarleg fjármuna- og efnahagsbrot og brotastarfsemi í tengslum við vinnumarkað.

Ekkert Norðurlandanna geti fegrað þetta ástand og brotastarfsemi sé orðin slík að umfangi að lögreglan geti ekki unnið hana með sama hætti og gert hefur verið fram til þessa.

Fara forsvarsmenn landsambanda lögreglumanna á Norðurlöndunum því fram á að stjórnvöld grípi til fjölþættra aðgerða.

Fjölgun lögreglu og norrænt samstarf

Fara þeir fram á fjölgun lögreglumanna á Norðurlöndunum öllum. Að auki þurfi löggæsluyfirvöld að hafa forystu um að greina hvaða hæfni þarf til framtíðar litið. Þeir sem stundi brotastarfsemi tileinki sér sífellt nýja tækni og vinnubrögð. Lögreglan þurfi því að vera á undan til að geta viðhaldið getu til að koma í veg fyrir glæpastarfsemi.

Sömuleiðis fara þeir fram á þéttara og virkara samstarf milli Norðurlandanna. Ef lögreglan eigi að geta fylgst með þróun brotastarfseminnar verði að stórefla miðlun upplýsinga. 

Sænska ástandið er orðið norrænt að sögn formanna landsambanda lögreglunnar …
Sænska ástandið er orðið norrænt að sögn formanna landsambanda lögreglunnar á Norðurlöndunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skólar og félagsleg úrræði 

Þá fara þeir fram á aukna þátttöku landssambanda lögreglumanna á Norðurlöndunum til að þróa nýjar vinnuaðferðir í baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi sem virði engin landamæri. Samböndin búi yfir þekkingu og reynslu af því að starfa saman þvert á landamæri og þekki því til ólíkra sviða starfseminnar. 

Fjárfesting í fyrirbyggjandi aðgerðum er einnig eitt af því sem farið er fram á en formennirnir ítreka að lögreglan geti ekki unnið verkið ein. Öll lönd, án tillits til þess hvaða ríkisstjórn situr hverju sinni, verða að gera meira til að stöðva nýliðun í skipulögðum glæpahópum.

„Vel fjármagnaðir skólar og félagsleg úrræði skipta máli, en einnig möguleikinn á að fá vinnu og geta unnið á vinnumarkaði og samlagast samfélaginu. Þetta skiptir sköpum þegar kemur að því að veita börnum og ungmennum tiltrú á framtíðina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka