Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna, stakk upp á því að Viðskiptaráð myndi bjóða sig fram í næstu þingkosningum. Þetta sagði hún á kosningafundi Viðskiptaráðs í Hörpu í dag.
Yfirskrift fundarins var „Horfum til hagsældar“ en þar var forystufólk stjórnmálaflokkanna fengið til að ræða um efnahagsmál auk annarra málaflokka sem varða bæði atvinnulífið og samfélagið í heild.
„Þar sem þessi fundur er á forsendum hægrisins og hefði sómað sér vel í inngangsræðum í einhverjum af hægri flokkunum þá veltir maður því fyrir sér af hverju Viðskiptaráð býður sig ekki fram,“ sagði Svandís í léttum dúr.
Hún sagði að það gæti verið svolítið spennandi fyrir Viðskiptaráðið sem sé farið að tala um menntakerfið og allt mögulegt annað en það sem lúti beinlínis að verkefnum eða viðfangsefnum þess.
„Það myndi þá væntanlega þýða meiri sundrungu á hægri vængnum sem væri þá væntanlega áhyggjuefni fyrir einhver,“ bætti hún við.
Björn Brynjúlfur, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs og umræðustjóri á fundinum, greip boltann á lofti og svaraði glettinn:
„Við skoðum þetta strax eftir fund. Við erum reyndar búin að missa af frestinum en við skoðum þetta fyrir næstu kosningar.“