Vegagerðinni hefur tekist að laga Djúpveg í Ísafjarðardjúpi. Vegfarendur eru þó beðnir um að aka með varúð því grjót og aur gæti runnið úr hlíðum og lent á vegum.
Sömuleiðis er greiðfært frá NV Vestfjörðum og um þjóðveg nr 60, að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum.
Vegakafli í Arnarfirði, milli Bíldudalsflugvallar og Dynjandisheiði er aftur á móti lokaður vegna vegaskemmda.
Unnið er að hreinsun vegarins um Eyrarhlíð, en þar féllu nokkur aurflóð í gær sem lokuðu veginum. Vegrið skemmdust við flóðin.
Veður er orðið skaplegt á Vestfjörðum og vonir standa til þess að hægt verði að opna veginn um Eyrarhlíð aftur í dag, vonandi um hádegisbilið.