„Ef þú ætlar að vera með fjölmiðlafrelsi á Íslandi, tryggðu þá rekstrarumhverfi fyrir frjálsa fjölmiðla sem er sanngjarnt.“
Þetta sagði Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, á kosningafundi Viðskiptaráðs sem haldinn var í Hörpu í morgun. Yfirskrift fundarins var „Horfum til hagsældar“.
Bjarni sagði að Ríkisútvarpið væri með svo mikið forskot á aðra fjölmiðla hvað varðar bein framlög, þjónustusamninga og gefið eigið fé og þyrfti ekki að hafa áhyggjur af rekstrinum þar sem hallinn sé alltaf hirtur upp.
„Þetta er ekki sanngjarnt í neinu samhengi og þess vegna þarf að taka RÚV af auglýsingamarkaði ef þú ætlar að standa með frjálsri fjölmiðlun. Mun það þýða að að auglýsingar fari eitthvað annað? Já það getur verið en svo tökumst við á við það hvernig úr því spilast.“
Hann segir að stóra spurningin með RÚV af auglýsingamarkaði verði sú hvort stjórnmálamenn ætli að bæta Ríkisútvarpinu krónu fyrir krónu úr vasa almennings þegar það verður af auglýsingatekjum.
Sigríður Andersen frambjóðandi Miðflokksins segir að það sem greinir Miðflokkinn frá Sjálfstæðisflokkunum varðandi RÚV sé að Sjálfstæðisflokkurinn styðji að það sé til öflugur ríkisfjölmiðill.
Hún segir að Miðflokkurinn sé ekki þeirrar skoðunar og telur að ríkið þurfi að draga sig af fjölmiðlamarkaði. Hún segir að það verði ekki gert með styrkjum til fjölmiðla og heldur ekki með því að taka RÚV af auglýsingamarkaði og bæta því allt tekjutapið sem fylgi því.
„Við þurfum að skoða það raunverulega, ef það er ekki samstaða um að draga úr umsvifum ríkisins á fjölmiðlamarkaði, þá eigi að leyfa fólki sjálft að ráðstafa úrvarpsgjaldinu þannig að það renni ekki til RÚV heldur geti fólk stjórnað því sjálft til hvaða einkarekins fjölmiðla hvert útvarpsgjaldið rennur,“ sagði Sigríður.