Formenn KÍ og SÍS funda með ríkissáttasemjara

Formenn samninganefnda hafa verið boðaðir á fund síðar í dag.
Formenn samninganefnda hafa verið boðaðir á fund síðar í dag. mbl.is/Golli

Formenn samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS) og Kennarasambands Íslands (KÍ) hafa verið boðaðir á fund hjá ríkissáttasemjara síðar dag. 

Ekki er þó um eiginlegan samningafund að ræða, en tíu dagar eru síðan síðasti samningafundur átti sér stað.

„Við ætlum að taka stöðuna og þá kemur í ljós hvort það hreyfist eitthvað áfram,“ segir Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar SÍS, í samtali við mbl.is.

Hún segir óformleg samtöl þó hafa átt sér stað síðustu daga og heimavinna hafi verið unnin.

„Það eru allir að reyna að vinna að því að leysa þessa deilu.“

Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Reynt að grafa undan aðilum við borðið

Spurð hvort það sé einhverjar lausnir séu í sjónmáli eða að þessi fundur í dag verði til þess að hægt verði að kalla til samningafundar, segir Inga það verða að koma í ljós.

„En vonandi tekst okkur að fara að ná meira samtali.“

Spurð út í það hvort fullyrðingar formanns KÍ um að samninganefnd SÍS hafi ekki nógu sterkt umboð til að semja við kennara, komi til með að hafa neikvæð áhrif við samningaborðið, segir Inga þær ekki gera það. Þau séu öll fagfólk sem vinni sína vinnu.

„Það er fullt umboð hjá okkur og okkar stjórn hefur gefið út yfirlýsingar um það. En það er bara verið að reyna að grafa undan aðilum við borðið, sem er dapurlegt. En okkar umboð er sterkt og algjörlega fullt og við erum með okkar bakland á bakvið okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka