Gatan í bylgjum og bíllinn hoppaði

Grindavíkurvegur gekk í bylgjum þetta kvöldið og rifnaði svo alveg …
Grindavíkurvegur gekk í bylgjum þetta kvöldið og rifnaði svo alveg í sundur, þegar Grindvíkingar voru margir hverjir á leið burt úr bænum vegna skjálfta. Á myndinni til hægri má sjá hvernig vegurinn leit út eftir bráðabirgðaviðgerð. Samsett mynd

„Við stóðum í útidyrunum og horfðum á dóttur okkar keyra inn götuna, sem gekk í bylgjum. Bíllinn hoppaði á henni. Aftan við okkur glamraði allt, gler hrundi og brotnaði og þetta var skelfileg upplifun,“ segir Hjörtur Gíslason blaðamaður.

Hann flúði ásamt fjölskyldu sinni Grindavík föstudaginn 10. nóvember 2023 þegar kvikugangur myndaðist undir byggð með tilheyrandi látum.

Hjörtur og Helga Þórarinsdóttir kona hans ræða atburðina í Grindavík, eftirmál þeirra og framtíðina.

Hjörtur og Helga keyptu íbúð í Hafnarfirði en vilja aftur …
Hjörtur og Helga keyptu íbúð í Hafnarfirði en vilja aftur til Grindavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vissu ekki hvert þau ætluðu

Hjörtur lýsir deginum sem hryllilegum.

Þau hafi verið orðin vön jarðskjálftum en ekki slíkum látum sem hófust um tvö- eða þrjúleytið þann dag. Þau höfðu samráð við dætur sínar og son og öll ákváðu þau að fara.

Þau vissu ekki hvert þau ætluðu, gripu með sér sængur og ullarsokka og hugðust vera í burtu um nóttina.

„Við vildum bara losna við þennan fjanda og koma aftur daginn eftir,“ segir Hjörtur.

Líkt og margar fjölskyldur úr Grindavík tvístraðist hún hingað og þangað í kjölfar atburðanna.

Meðan á látunum stóð bauð systir Hjartar fjölskyldunni að dvelja í húsi sínu á Seltjarnarnesi en sjálf var hún erlendis.

Langt að fara

Þá dvöldu þau í sumarbústað Blaðamannafélags Íslands í Stykkishólmi. „Það var í sjálfu sér ágætt nema hvað það var langt að fara til Grindavíkur þegar fólki var hleypt inn.“

Hjörtur rifjar upp að í eitt skiptið hafi þau verið komin inn í bæinn til að vitja eigna sinna og átt 50 metra eftir í átt að húsinu en þá hafi bærinn verið rýmdur í skyndi og í annað skipti hafi þau komist inn í húsið í fimm mínútur áður en þeim var gert að yfirgefa bæinn.

„Þetta var skelfilegur tími og óvissan var mikil.“

Viðtalið má lesa í heild sinni í sérblaði Morgunblaðsins um hamfarirnar í Grindavík 10. nóvember.

24 síðna sérblað fylgdi Morgunblaðinu á laugardag, þar sem fjallað …
24 síðna sérblað fylgdi Morgunblaðinu á laugardag, þar sem fjallað er um hamfarirnar 10. nóvember, upplifun Grindvíkinga og afdrif þeirra.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka