Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, hefur ekki óskað Donald Trump, næsta forseta Bandaríkjanna, til hamingju með sigur hans í forsetakosningunum í Bandaríkjunum eins og hefð er fyrir.
Sif Gunnarsdóttir forsetaritari segir að til standi að gera það með formlegum hætti þegar Trump verður vígður í embætti í janúar.
„Hún mun senda formlegt heillaóskaskeyti þegar hann verður settur í embætti,“ segir Sif.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra hafa óskað Trump til hamingju á samskiptaforritinu X, áður Twitter.
Sif segir enga sérstaka hefð fyrir því hvernig heillaóskir eru sendar til þjóðarleiðtoga eftir sigur í kosningum.
„Það er ekki hefð fyrir því að senda heillaóskir á alla þjóðarleiðtoga í heiminum. Þetta er metið hverju sinni,“ segir Sif.
Guðni Th. Jóhannesson, fyrrverandi forseti Íslands, valdi aðra leið þegar Joe Biden sigraði í bandarísku forsetakosningum árið 2020. Þá óskaði hann Biden til hamingju á X. Hið sama gerði Katrín Jakobsdóttir, þáverandi forsætisráðherra.
Þá sendi Guðni heillaóskaskeyti á Donald Trump eftir að hann var kjörinn árið 2016. Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra og formaður Framsóknarflokksins, gerði hið sama.