Hefur sagt ýmislegt „vandræðalegt, heimskulegt og rangt“

Þórður Snær biðst afsökunar á 20 ára gömlum ummælum sínum.
Þórður Snær biðst afsökunar á 20 ára gömlum ummælum sínum. Samsett mynd

Þórður Snær Júlíusson, blaðamaður og frambjóðandi Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður, hefur beðist velvirðingar á ummælum sínum um konur í nafnlausum bloggfærslum fyrir 20 árum.

Þórður var gestur Stefáns Einars Stefánssonar í Spursmálum Morgunblaðsins þar sem sá síðarnefndi dró fram gömul ummæli Þórðar undir dulnefninu German Steel á bloggsíðunni thessarelskur.blogspot.com.

Fólk lifi og læri

„Vegna þess þá er rétt að ég játi skýrt að hafa skrifað og sagt ýmislegt á þessum árum sem var vandræðalegt, heimskulegt og rangt. Á því biðst ég auðmjúklega afsökunar án nokkurs fyrirvara,“ skrifar Þórður.

Kveðst hann hafa þroskast og breyst frá þessum tíma þar sem hann var rúmlega tvítugur. Ítrekar hann að engin af þeim ummælum sem komi fram í frétt Stefáns Einars endurspegli hans gildi eða skoðanir í dag. Fólk lifi og læri.

Fjöldi fólks hefur lýst skoðunum sínum í athugasemdum við færsluna, ýmist lýst stuðningi við afsökunarbeiðni Þórðar eða til að krefja hann frekari svara um ummælin.

Nýtur ekki stuðnings fyrrverandi samstarfskonu

Þá vekur það helst athygli að fyrrverandi samstarfskona Þórðar og ritstjóri Heimildarinnar, Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, gagnrýnir Þórð fyrir að gefa það í skyn að hann hafi verið ungur og óreyndur er orðin voru rituð.

„Maður sem er fæddur árið 1980 er ekki rúmlega tvítugur á árunum 2006 og 2007, heldur 26 og 27 ára. Það er ekki mikil auðmýkt í þessari framsetningu. Á þeim tíma varst þú ekki bara með krullurnar á djamminu heldur einnig að skrifa fréttir í fjölmiðla,“ skrifar Ingibjörg.

Svarar Þórður athugasemd Ingibjargar og segir færsluna sem vitnað var í hafa verið skrifaða fyrri hluta árs 2004.

Talar eins og færslan hafi verið ein

„Ég var ekki starfandi blaðamaður heldur i háskólanámi. Ég var því ekki að skrifa fréttir i fjölmiðla. En ég ber samt sem áður auðvitað fulla àbyrgð á þessum vondu skrifum, og vík mér ekki undan henni. Ég sé þau fyrir það sem þau eru og biðst afsökunar á þeim.“

Svarar Ingibjörg Þórði og segir hann tala eins og færslan hafi aðeins verið ein en ekki margar.

„Þú talar eins og þetta hafi verið ein færsla frá árinu 2004. Færslan um Rannveigu Rist birtist í febrúar 2007, þar sem hún var sögð „daðra við að vera þroskaheft“. Aftur: Þú talar um auðmýkt, en það er erfitt að gera lítið úr og biðjast auðmjúklega afsökunar á sama tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert