Kalla eftir átaki og minna á Vestfjarðarlínu

Frá fundi Innviðafélags Vestfjarða með frambjóðendum í Norðvesturkjördæmi á mánudag.
Frá fundi Innviðafélags Vestfjarða með frambjóðendum í Norðvesturkjördæmi á mánudag. Ljósmynd/Haukur Sigurðsson

Innviðafélag Vestfjarða hefur kallað eftir átaki í átt að öruggari og áreiðanlegri samgöngum.  Óáreiðanlegar og óöruggar samgöngur bitna ekki einungis á íbúum Vestfjarða heldur einnig á fyrirtækjum og útflutningsverðmætum þeirra.

Þá minnir félagið á tillögu um svokallaða Vestfjarðarlínu.

Þetta kemur fram í ályktun félagsins en félagið stóð fyrir fundi með frambjóðendum í Norðvesturkjördæmi á mánudag.

Milljarðar í húfi

Aurskriður hafa fallið víða á Vestfjörðum síðustu daga eftir mikla úrkomu. Fyrir vikið hefur þurft að loka vegum.

Þetta bitnar á Vestfirðingum sem þurfa að sækja vinnu eða þjónustu í nærliggjandi byggðum. Í ályktuninni segir að þetta bitni einnig á vestfirskum fyrirtækjum sem þurfi að líða skert afhendingaröryggi útflutningsafurða og aðfanga.

Fyrir vikið sé verið að skerða samkeppnishæfni atvinnulífsins á Vestfjörðum.

Í ályktuninni er lokun vegar um Eyrarhlíð tekin sem dæmi en um þann veg fara 140 milljóna króna útflutningsverðmæti af laxi dag hvern.

Um þann veg fara langmestar tekjur Fiskmarkaðar Vestfjarða í Bolungarvík en á árinu hefur markaðurinn selt 7.500 tonn fiskafurða fyrir 2,5 milljarða króna.

Mynd af skriðu yfir veginn um Eyrarhlíð sem tekin var …
Mynd af skriðu yfir veginn um Eyrarhlíð sem tekin var í gær. Ljósmynd/Veðurstofan Íslands

Minna á Vestfjarðalínu

Að gefnu tilefni minnir félagið á tillögur um svokallaða Vestfjarðalínu sem er ákall um uppbyggingu jarðganga og annarra samgöngumannvirkja sem sérstakt og afmarkað viðfangsefni.

Mikilvægur hluti línunnar er uppbygging vegskála um Eyrarhlíð og Álftafjarðargöng.

„Innviðafélag Vestfjarða minnir á að atburðir síðustu daga eru í senn áminning og ákall um áreiðanlegri samgöngur á Vestfjörðum. Ítrekuð samgöngurof eru óásættanleg fyrir Vestfirðinga sem og aðra. Breytum því með samstilltu átaki í uppbyggingu samgönguinnviða á Vestfjörðum,“ segir í ályktun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert