Kílómetragjaldið ekki klárað fyrir áramót

Ekkert verður af því að frumvarp til laga um kílómetragjald af ökutækjum verði að lögum fyrir áramót eins og stefnt hafði verið að. Þetta kemur fram í nefndaráliti meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2025 sem birt var á vef Alþingis í dag.

Segir í áliti meirihluta nefndarinnar að rétt sé að hækka önnur gjöld í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabankans í þessu ljósi.

„Þar sem ekki er áformað að frumvarp til laga um kílómetragjald af ökutækjum verði að lögum fyrir áramót leggur meiri hlutinn til að kolefnisgjald, olíugjald, almennt og sérstakt kílómetragjald og almennt og sérstakt bensíngjald hækki um 2,5% í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands,“ segir í áliti meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar.
Ríkisstjórnin hefur lagt á það áherslu að málið færi í gegn fyrir þinglok en nú virðist útséð um það.

Í áliti sömu nefndar með frávísunartillögu um frumvarp til laga um kílómetragjald á ökutæki, sem dagsett er í gær, segir að ekki verði fram hjá því lítið að kallað sé eftir frekari greiningu og auknu samráði við hagsmunaaðila. Þau sjónarmið hafi komið fram hjá umsagnaraðilum.

„Frumvarpið felur í sér umfangsmikla breytingu á gjaldtöku fyrir notkun ökutækja og því mikilvægt að það sé undirbyggt með frekara samráði og greiningu og áhrifamati þannig að hið nýja kerfi skapi ekki óæskileg áhrif fyrir almenning og atvinnugreinar. Meiri hlutinn leggur áherslu á að hafist verði handa við þá vinnu án tafar. Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar,“ segir í álitinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka