„Fyrstu dagana bjuggum við í sumarbústað foreldra minna og þá voru tengdaforeldrar mínir að utan í heimsókn líka svo að það var þröng á þingi,“ segir Guðjón Sveinsson Grindvíkingur í spjalli um hvernig þeim hjónum, honum og Ayçu Eriskin, hafi reitt af síðan þau ræddu við mbl.is 19. nóvember í fyrra, við upphaf þrenginga þeirra sem hér eru tíundaðar.
Þá var glænýr drengur kominn í heiminn, Sveinn Özer, sem fagnar nú eins árs afmæli sínu samhliða því sem líf Guðjóns og Ayçu er að falla í skorður á ný. Þó ekki alveg. Rifjum upp ummæli Guðjóns í viðtali við mbl.is fyrir ári:
„Við erum í frekar góðri stöðu miðað við marga og þrátt fyrir þetta,“ segir Guðjón.
„Þetta tekur auðvitað á að ákveðnu leyti en við höfum það sterkt bakland að við erum alltaf örugg og getum alltaf fundið húsaskjól. Þetta eru bara svona skyndilegar breytingar sem maður lagði ekki upp með og eitthvað sem maður hafði ekki stjórn á.“
„Við vorum þrjár-fjórar vikur þar og fengum svo leiguíbúð einhvers staðar í Reykjavík þar sem við vorum einhverjar vikur,“ segir fjölskyldufaðirinn, „svo fengum við aðra leiguíbúð sem við erum búin að vera í frá því um áramótin,“ segir hann, en þau fjölskyldan eru nú þokkalega sett við Vinastræti í Garðabæ eftir fleiri en einn búferlaflutning.
Og alltaf er nú jafn „gaman“ að burðast með búslóðina sína.
„Já,“ segir Guðjón með vægu andvarpi en er ellegar hinn hressasti, „við tókum svo sem bara fyrst nauðsynjar og stór hluti búslóðarinnar er reyndar enn í geymslu. Við vorum búin að koma okkur fyrir í ágætishúsi í Grindavík og þetta sem við erum í núna er töluvert minna,“ segir Guðjón, sem er borinn og barnfæddur Grindvíkingur.
Hvernig líður ykkur þá núna eftir þetta rót allt saman og það sem gerðist í Grindavík?
„Eins og allir er maður bara enn þá að melta þetta og við erum í raun bara enn þá að meta næstu skref,“ svarar Guðjón hugsi, „þessi leigustuðningur er náttúrulega alveg búinn að bjarga manni. Þótt margir hafi gagnrýnt ríkisstjórnina er margt fínt búið að gerast, en við erum samt föst í því að við höfum ekki fengið samþykkt uppkaup á húsinu okkar í Grindavík,“ segir Guðjón frá og útskýrir þetta nánar.
Þau Ayça seldu íbúð í Hafnarfirði sem var aðeins minni en húsið sem þau keyptu í Grindavík. „Við áttum ekki alveg fyrir húsinu og þá hjálpuðu foreldrar mínir og húsið var í raun enn skráð á þau þegar við ætluðum að reyna að kaupa það af þeim, en þá voru ekki nema nokkrir mánuðir liðnir frá því allt þetta gerðist og vegna þess skilyrðis að fólk eigi lögheimili á eigninni, sem þau eiga ekki, fást uppkaupin ekki samþykkt og ég veit að fleiri eru í þessari stóðu, bjuggu í framtíðarhúsnæði sem þó var í raun ekki þeirra vegna lánsmats,“ útskýrir Guðjón.
Viðtalið má lesa í heild sinni í sérblaði Morgunblaðsins um hamfarirnar í Grindavík 10. nóvember.