Margeir stefnir ríkinu eftir ásakanir um áreiti

Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn var sendur í leyfi haustið 2023 eftir …
Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn var sendur í leyfi haustið 2023 eftir að sálfræðistofa komst að þeirri niðurstöðu að hann hafi beitt samstarsfskonu sína og undirmann ofbeldi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Háttsettur lögreglumaður sem var í fyrra sendur í nokkurra mánaða starfsleyfi vegna ásakana um kynferðislegt áreiti og ofbeldisfulla hegðun í garð samstarfskonu hefur ákveðið að stefna ríkinu.

Umræddur lögreglumaður er Margeir Sveinsson, sem er nú aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild, en Vísir hefur eftir honum að hann hafi stefnt ríkinu. Hann vilji að öðru ekki tjá sig frekar um málið.

mbl.is hefur ekki náð tali af Margeiri vegna málsins.

Margeir var sendur í leyfi haustið 2023, eins og mbl.is greindi frá í september þess árs, en þá hafði hann verið aðstoðar­yf­ir­lög­regluþjónn hjá miðlægri rann­sókn­ardeild lög­reglu.

Hann sneri þó aftur til starfa nokkrum mánuðum síðar og nú heyrir hann undir Grím Grímsson, yfirmann rannsóknarsviðs, og starfar þar sem aðstoðaryfirlögregluþjónn. Aldrei fengust svör frá lögregluembættinu við því hvers vegna Margeir var sendur í leyfi.

Lögreglukona hafi þurft að þola áreiti og ofbeldisfulla hefðun

Kastljós greindi síðan frá því þann 12. desember 2023 að lög­reglu­kona hjá lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu hefði mánuðum saman þurft að þola áreitni og ofbeldisfulla hegðun af hendi eins æðsta yfirmanns embættisins sem hafi verið tæp­lega 30 árum eldri en hún.

Lögreglumaðurinn í þættinum var ekki nafngreindur en Vísir greindi frá því degi síðar að umræddur lögreglumaður væri Margeir.

Degi eftir að þátturinn var frumsýndur sendi lögreglan einnig út fréttatilkynningu þar sem kom fram að embættið hefði þurft að takast á við fimm starfsmannamál á árinu sem vörðuðu ósæmi­lega hátt­semi starfs­fólks embætt­is­ins – m.a. einelti, kyn­ferðis­lega áreitni, kyn­bundna áreitni og of­beldi.

Samkvæmt Kastljósi var háttsetti lögreglumaðurinn sendur í leyfi í nokkra mánuði og aftur kominn til starfa á skrifstofu lögreglustjóra. 

Tíu af tólf at­vik­um flokkuðust und­ir of­beldi

Lögreglukonan lagði fram kvört­un til yf­ir­manns síns í fe­brú­ar 2023 vegna hegðunar yfirmannsins, sem er talinn hafa verið Margeir.

Sálfræðistofan Líf og Sál var verið feng­in til að meta ásak­anir hennar og í skýrslu kom fram að 10 af þeim 12 atvikum sem tekin voru til skoðunar féllu undir skilgreiningu ofbeldis.

Lögreglumaðurinn hafi gerst sek­ur um of­beldi með stöðugri áreitni – bæði utan og innan vinnustaðarins – og valdið kon­unni mik­illi van­líðan og ótta með hegðun sinni. Hann hafi m.a. þvingað konuna til að taka á móti sér á heimili hennar seint að kvöldi, sent henni ítrekað skilaboð og setið fyrir henni í vinnunni.

Sem fyrr segir hefur mbl.is ekki náð í Margeir vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert