Ríkislögreglustjóri kannar málsatvik

Þetta kemur fram í skriflegu svari frá embætti ríkislögreglustjóra.
Þetta kemur fram í skriflegu svari frá embætti ríkislögreglustjóra. Eggert Jóhannesson

Ríkislögreglustjóri rannsakar ekki að svo stöddu njósnir erlends njósnafyrirtækisins hér á landi en segist ætla að kanna málsatvik.

Ísra­elska njósna­fyr­ir­tækið Black Cube var, að sögn Jóns Gunn­ars­son­ar þingmanns, ráðið til að afla gagna um hann í tengsl­um við hval­veiðar og tók upp sam­ræður við son Jóns, sem Heim­ild­in gerði sér svo mat úr.

Í upptökunum segir Gunnar Bergmann, sonur og viðskiptafélagi Jóns, við erlendan mann sem þótt­ist vera fjár­fest­ir að faðir sinn hefði samþykkt beiðni Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra að taka 5. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins gegn því að Jón kæmist í aðstöðu til að afgreiða umsókn Hvals hf. um leyfi til hvalveiða.

Jón hefur sjálfur neitað þessu og kallar njósnirnar „aðför að lýðræðinu“. Bjarni segir Jón ekki munu koma nálægt hvalveiðimálinu og segir njósnirnar bera „öll ein­kenni þess að vera ætlað að hafa áhrif á at­b­urðarás og mögu­lega fram­vindu í aðdrag­anda kosn­inga“.

Spurningum ekki svarað

Málið hefur vakið mikla athygli síðustu daga og mbl.is beindi fyrirspurn til embættisríkislögreglustjóra í leit að frekari upplýsingum um njósnastarfsemi á Íslandi. Blaðamaður fékk þó ekki svör við öllum sínum spurnigum.

„Embættið er ekki með umrætt mál til rannsóknar en mun kanna málsatvik er varða meinta háttsemi erlends fyrirtækis,“ skrifar Helena Rós Sturludóttir, samskiptastjóri embættis ríkislögreglustjóra, í svari við fyrirspurninni.

Helena svaraði ekki hvort hún teldi áhyggjuefni að erlent njósnafyrirtæki á borð við Black Cube hefði starfsemi hér á landi. Hún svaraði heldur ekki hvort ríkislögreglu teldi að um sé að ræða erlend afskipti á íslenskar kosningar, eins og Bjarni hefur gefið í skyn.

Þá svaraði hún hvorki hvort mál að slíku tagi hafi komið á borð ríkislögreglustjóra áður, né hvort ríkislögreglustjóri viti hver fjármagnaði verkkaupin eða hvort ríkislögreglustjóri ætlaði að reyna að komast að því.

Þó er tekið fram í svari samskiptastjórans að ríkislögreglustjóri rannsaki mál er varða landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum eins og þau eru skilgreind í hegningarlögum. Ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs séu rannsökuð af lögreglu í því umdæmi sem brot eiga sér stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka