Greiðsla sanngirnisbóta til einstaklinga er dvöldu á vistheimili fyrir börn á Hjalteyri í Arnarneshreppi er enn í biðstöðu þar sem frumvarp til laga um almennar sanngirnisbætur hefur ekki verið samþykkt.
Ekki hefur því verið hægt að útfæra og ganga frá greiðslu bótanna, að sögn Halldórs Þormars Halldórssonar, umsjónarmanns sanngirnisbóta.
Gert var ráð fyrir 410 milljóna króna tímabundnu framlagi til uppgjörs á sanngirnisbótum vegna misgjörða á vistheimilinu í fjárlagafrumvarpinu árið 2024, en með lagasetningu stóð til að hægt væri að ganga frá greiðslu bótanna.
Frumvarp um sanngirnisbætur sem Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, lagði fram í október á síðasta ári, er hins vegar enn til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd en umfjöllun um málið var frestað á síðasta fundi nefndarinnar í júní.
Áður hafði Jón Gunnarsson, fyrrverandi dómsmálaráðherra, lagt fram drög að frumvarpi til laga um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á vistheimilinu undir lok ársins 2022.
Þar sagði að frumvarpið gerði kleift að taka á málum einstaklinga sem urðu fyrir varanlegum skaða af illri meðferð eða ofbeldi þegar þeir voru vistaðir sem börn á heimilinu á árunum frá 1972 til 1979.