Ísraelska fyrirtækið Black Cube, sem talið er að hafi tekið með leynd upp samtöl við son Jóns Gunnarssonar alþingismanns um hvalveiðiáform, fer ekki dult með hvaða starfsemi það stundar.
Á vefsíðu fyrirtækisins segir að þar starfi fyrrverandi starfsmenn ísraelsku leyniþjónustunnar sem skipuleggi hugvitssamlegar og flóknar aðgerðir, studdar bestu mögulegu tækni, til að afla upplýsinga sem annars væri ekki hægt að komast yfir.
„Við erum leiðandi fyrirtæki í heiminum við að afhjúpa spillingu, svik, mútur, undanskot eigna og aðra hvítflibbaglæpi, jafnvel þótt engin skrifleg gögn sé að finna,“ segir á heimasíðunni.
Jafnframt er tekið fram að aðferðir fyrirtækisins gangi ekki í berhögg við gildandi löggjöf í þeim löndum þar sem það starfi.
Fyrirtækið var stofnað árið 2011 af tveimur fyrrverandi liðsmönnum í leyniþjónustu ísraelska hersins.
Nú starfa þar um 150 manns, margir fyrrverandi starfsmenn ísraelsku leyniþjónustunnar Mossad, og það er með skrifstofur í Tel Aviv í Ísrael, London í Englandi og Madríd á Spáni.
Black Cube heldur því fram að gögn, sem fyrirtækið hafi aflað, hafi verið notuð í dómsmálum víða um heim, starfsmenn þess hafi unnið í yfir 540 málum í yfir 75 löndum og aðstoðað við að endurheimta um 5,3 milljarða dala eignir fyrir viðskiptavini sína og vinna 14,7 milljarða dali í bætur í dómsmálum.
Starfsemi Black Cube fór lengi ekki hátt en þegar líða fór á síðasta áratug komu upp á yfirborðið nokkur mál sem vægast sagt lyktuðu illa.
Nánar er fjallað um Black Cube í Morgunblaðinu í dag.