Jólaljós hafa ekki verið tendruð fyrir framan úra- og skartgripaverslun Jóns og Óskars á Laugavegi í nokkur ár að fyrirmælum borgarinnar, að sögn hárskera í sömu götu.
„Þetta hófst fyrir einhverjum árum síðan,“ segir Jökull Jörgensen hárskeri í samtali við blaðamann mbl.is.
Hann segir Jón Sigurjónsson gullsmið hafa verið duglegan að skrifa borginni um skipulags- og bílastæðamál, enda sé verslun Jóns og Óskars ein sú elsta á Laugaveginum. Það virðist hafa farið illa í borgina sem hafi í kjölfarið tekið upp á að hætta að skreyta fyrir utan verslunina.
Jólaljósin voru sett upp í dag en að vana voru aspirnar tvær sniðgengnar, en þær standa einnig beint fyrir utan Hárskera almúgans, sem Jökull rekur. Gaf hann sig því á tal við tvo starfsmenn sem settu upp ljósin í dag og spurði hvers vegna þessar tilteknu aspir væru ekki skreyttar.
Starfsmennirnir hafi tjáð honum að þeir hafi einnig furðað sig á því en hafi fengið skýr fyrirmæli frá yfirmönnum um að sneiða hjá trjánum. Annar þeirra hafi hringt sérstaklega í yfirmenn til að staðfesta hvort það gæti verið að þeir ættu að sleppa þeim og fengið það staðfest.
„Hann sýndi mér kort af Laugaveginum þar sem aspirnar voru merktar inn á kortið og það voru rauðir krossar yfir þessum tveim,“ segir Jökull forviða.
„Þetta er bara einelti og verið að refsa honum [Jóni] fyrir að hafa haft sig frammi og það er ekki bara verið að refsa honum. Það er verið að refsa borgarbúum og það er verið að refsa mér hinum megin við götuna og öllu þessu fólki sem er að borga útsvar.“
Blaðamaður sló einnig á þráðinn til Jóns Sigurjónssonar gullsmiðs og annars stofnenda verslunarinnar.
Kvaðst hann ekki geta svarað fyrir hvers vegna trén fyrir utan verslunina hefðu ekki verið skreytt. Hann hafi átt áður átt í ýmsum samskiptum við borgaryfirvöld um mál er varða hag verslunarmanna, eins og bílastæðamál, en látið af því fyrir löngu vegna árangursleysi.
Hann hafi ekki alltaf verið sammála stefnu borgarinnar en það þýði ekki að hann vilji ekki skreytingar fyrir utan verslunina.
Aspirnar standi jú líka fyrir utan aðrar verslanir. Sjálfur geti hann sætt sig við að ekki sé skreytt fyrir utan búðina, en það sé leiðinlegt að aðrir verslunarmenn í kring þurfi líka að gjalda.
„Við eigum alveg skilið að fá jólaljós í trén hjá okkur, enda ein elsta búðin. Erum búin að vera hérna í 50 ár. Ef borgaryfirvöldum er eitthvað í nöp við okkur þá viljum við vita hvað það er. Ef það er verið að hefna sín eitthvað á okkur.“