Tuttugu milljónir í geðheilbrigði: Sautján fá styrk

Tilgangur sjóðsins er að stuðla að framförum í geðheilbrigðismálum með …
Tilgangur sjóðsins er að stuðla að framförum í geðheilbrigðismálum með því að veita styrki til verkefna sem geta bætt geðheilbrigði eða skilning á því á Íslandi. Ljósmynd/Mummi Lú

Styrktarsjóður geðheilbrigðis hefur úthlutað 20 milljónum króna til 17 mismunandi verkefna í þágu geðheilbrigðismála.

Alls bárust 36 umsóknir til sjóðsins í ár en hæsta styrk hlaut verkefnið Okkar heimur: Fræðsla fyrir foreldra og fagaðila, eða 3.500.000 kr.

Allt frá fræðslu til fótbolta

Þetta er fjórða úthlutun sjóðsins og fór hún fram í veislusal veitingastaðarins Nauthóls.

Tilgangur sjóðsins er að stuðla að framförum í geðheilbrigðismálum með því að veita styrki til verkefna sem geta bætt geðheilbrigði eða skilning á því á Íslandi.

Í tilkynningu frá Styrktarsjóði geðheilbrigðis segir að í ár hafi sérstaklega verið litið til umsókna sem sneru að valdeflingu notenda, valdeflingu aðstandenda, mannréttinda, jafnréttis og nýsköpunar.

Eftirfarandi verkefni hlutu styrk úr geðheilbrigðissjóðnum:

Okkar heimur: Fræðsla fyrir foreldra og fagaðila

Verkefnið snýr að gerð fræðslusíðu fyrir foreldra sem glíma við geðræn veikindi og fyrir fagaðila. Okkar heimur er nú þegar með fræðslusíðu fyrir börn sem eru aðstandendur en verkefnið núna miðar að því að uppfæra þá síðu og bjóða einnig foreldrum og fagaðilum upp á fræðsluefni.

Úthlutun: 3.500.000 kr.

Sigríður Gísladóttir tók við sjóðsúthlutuninni fyrir hönd verkefnisins Okkar heimur.
Sigríður Gísladóttir tók við sjóðsúthlutuninni fyrir hönd verkefnisins Okkar heimur. Ljósmynd/Mummi Lú

Matthildarteymið: Skaðaminnkandi heilbrigðisaðstoð í skemmtana- og tónlistarlífinu á Íslandi

Matthildarteymið er sérhæft teymi sem veitir lágþröskulda skaðaminnkandi þjónustu, heilbrigðisaðstoð og sálrænan stuðning til einstaklinga í skemmtana- og tónlistarlífinu á Íslandi.

Úthlutun: 3.000.000 kr.

Svala og Hildur úr Matthildarteyminu.
Svala og Hildur úr Matthildarteyminu. Ljósmynd/Mummi Lú

Afstaða: Bætt lýðheilsa og betrun dómþola

Vettvangsteymi Afstöðu býður upp á einstaklingsmiðaða ráðgjöf, hópmeðferðir og fræðslu sem miðar að því að styrkja fanga til að taka ábyrgð á eigin lífi og framtíð.

Úthlutun 2.800.000 kr.

Guðmundur Ingi Þóroddsson og Guðbjörg Sveinsdóttir, aðstandendur verkefnisins Afstaða.
Guðmundur Ingi Þóroddsson og Guðbjörg Sveinsdóttir, aðstandendur verkefnisins Afstaða. Ljósmynd/Mummi Lú

Dagný Birna Indriðadóttir og Gyða Stefanía Halldórsdóttir: Fræðsluefni um geðheilsu á auðlesnu máli

Um er að ræða verkefni þar sem stefnt er að því að bæta aðgengi einstaklinga með þroskahömlun að geðheilbrigðisupplýsingum, sem oft eru settar fram á flóknu máli og nú verður verkfærakistan stækkuð.

Úthlutun: 2.000.000 kr.

Rauði krossinn: Aðstoð eftir afplánun

Megintilgangur verkefnisins er að fækka endurkomum í fangelsin og auka virkni, félagsfærni og vellíðan. Um er að ræða verkefni þar sem sjálfboðaliðar skuldbinda sig til að hitta þátttakendur eina klst. í viku í eitt ár og veita þannig félagslegan stuðning auk þess að aðstoða við ýmis praktísk mál.

Úthlutun: 1.100.000 kr.

Framfarahugur: Hugræn velferð ungmenna

Hugræn velferð ungmenna er leiklistarverkefni fyrir ungmenni af erlendum uppruna á aldrinum 16 til 25 ára óháð búsetu en er sérstaklega miðað að ungmennum í viðkvæmri stöðu, þ.m.t. þeim sem hafa fengið stöðu flóttamanns.

Úthlutun: 1.000.000 kr.

Traustur kjarni: Þýðing námsefnis Intentional Peer Support á íslensku

Verkefnið snýst um að þýða námsefni IPS á íslensku. Markmið verkefnisins er að efla notendur og aðstandendur með því að tryggja að einstaklingar með reynslu fái aðgang að mikilvægu námsefni á þeirra eigin tungumáli.

Úthlutun: 1.000.000 kr.

Margrét Seema Takyar/Hark kvikmyndagerð: Skiladagur

Skiladagur er stuttmynd um fæðingarþunglyndi. Myndin er 10 mínútur og gerist á einum degi á heilsugæslu í Reykjavík. Myndin er hugsuð sem innlegg í umræðuna um fæðingaþunglyndi og þar sem frásögnin er sögð út frá reynsluheimi kvenna.

Úthlutun: 1.000.000 kr.

Eden Foundation: Psychedelics as Medicine 2025 ráðstefna

Psychedelics as Medicine er ráðstefna um notkun hugvíkkandi efna í meðferðarskyni. Þetta er í annað skipti sem slík ráðstefna er haldin á Íslandi en ráðstefnan er skipulögð af öflugu teymi notenda sem hafa víðtæka og alþjóðlega þekkingu á málefninu.

Úthlutun: 1.000.000 kr.

Grófin: Lausa skrúfan

Lausa skrúfan er vitundarvakning og jafnframt vegvísir fyrir fólk á Norðurlandi og er ætlað að bæta samfélagslega vitund um mikilvægi þess að hugsa vel um sína andlegu heilsu og hlúa að henni sem forvörn.

Úthlutun: 750.000 kr.

Bjarmahlíð, þolendamiðstöð fyrir þolendur ofbeldis: Sterk á ný!

Verkefnið snýst um að setja á laggirnar tengslahópa fyrir konur sem leita í Bjarmahlíð og eru með geðrænan vanda af ýmsum toga.

Úthlutun: 700.000 kr.

Tækifærið – námskeið fyrir ungt fólk af erlendum uppruna

Tækifærið býður upp á námskeið fyrir ungt fólk af erlendum uppruna sem hvorki er virkt í vinnu né námi. Markmiðið er að veita innsýn í íslenskt samfélag og vinnumarkað, um leið og unnið er að betri andlegri, líkamlegri og félagslegri stöðu.

Úthlutun: 600.000 kr.

Gunnhildur Una Jónsdóttir: „Mad studies” (Brjáluð fræði) í íslensku samhengi

Verkefnið byggir á rannsókn á upplifun þess að skrifa sjálfsævisögulega bók um andlegar áskoranir. Fræðilegur grunnur rannsóknarinnar er „Mad studies“ eða brjáluð fræði en lítið sem ekkert hefur verið fjallað um þessa nýju fræðagrein hér á landi.

Úthlutun: 400.000 kr.

Mia magic: Mía fer í blóðprufu

Mía fer í blóðprufu er bók ætluð er börnum sem þurfa að fara í blóðprufu en hún er hugsuð sem hjálpartæki fyrir börnin sem og foreldra og fagfólk.

Úthlutun 400.000 kr.

Bryndís Guðmundsdóttir: Af hverju ertu að gráta pabbi?

Bókin „Af hverju ertu að gráta pabbi?“ eftir lækninn Martin Saksö, sem skrifar út frá eigin reynslu frá sjónarhorni sonar, er tilbúin til prentunar og er áætlað að prenta 500 til 1.000 eintök og dreifa þangað sem hennar er þörf.

Úthlutun: 250.000 kr.

Vinaskákfélagið: Geðveik skák

Vinaskákfélagið er skákfélag sem hefur aðsetur í Vin Dagsetur að Hverfisgötu 47 og er tilgangur þess að efla skáklíf meðal fólks með geðraskanir.

Úthlutun 250.000 kr.

FC Sækó: Geðveikur fótbolti

FC Sækó liðar hittast einu sinni til þrisvar sinnum í viku til að spila fótbolta. Liðið fer annað hvert ár í keppnisferðir erlendis þar sem att kappi er við lið sem stofnuð voru af núverandi og fyrrverandi notendum geðþjónustunnar en FC Sækó kemur úr sömu átt.

Úthlutun 250.000 kr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert