Starfsfólk skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar er enn að fara í heimsóknir á ungbarnaleikskólann Lund til að fylgjast með hvort hafin sé vinna við úrbætur á starfseminni.
Samtöl við starfsfólk standa einnig yfir varðandi það hvernig verk eru unnin á leikskólanum.
Þetta staðfestir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, í samtali við mbl.is.
Ljóst var að ákveðin skilyrði hafi ekki verið uppfyllt á leikskólanum svo börnin gætu notið sín í leikskólastarfinu og fengið gott atlæti og rík tækifæri til þroska.
Farið var í óundirbúna eftirlitsferð á leikskólann síðastliðinn föstudag eftir að nokkrar ábendingar bárust um aðbúnað barnanna, og í kjölfarið var farið fram á úrbætur á ákveðnum atriðum.
Ekki hefur enn verið fundað með foreldrum vegna málsins en þeir hafa verið upplýstir um stöðuna í tölvupósti.
„Við erum að skoða frekari gögn og eiga samtöl við starfsfólk, svo erum við að undirbúa hvernig við munum kynna stöðu málsins til foreldra,“ segir Helgi, en hann gerir ráð fyrir að það verði í næstu viku.
„Við erum að fara okkur hægt til þess að við höfum nokkra vissu og tillögur um hvaða úrbætur þurfi að eiga sér stað.“
Ljóst er að fótur var fyrir þeim athugasemdum sem gerðar hafa verið og að úrbóta sé þörf. Helgi getur þó ekki sagt til um það ennþá hvers eðlis þær eru.
„Við þurfum staðfestingu frá starfsfólki á nokkrum atriðum og við erum að fara áfram í heimsóknir í skólann og höldum því áfram fram í næstu viku. Þannig við séum með eins glögga mynd af stöðunni og starfsaðferðum og hægt er og getum síðan tekið samtalið við foreldrana og starfsfólk og stjórnendur hver næstu skref eru.“
Aðspurður hvort hann telji að loka þurfi leikskólanum, segir hann: „Við erum ekki á þeim stað í dag, en enn og aftur, það skiptir miklu máli að börnin njóti sín í leikskólastarfinu, fái gott atlæti og rík tækifæri til þroska.
Þið teljið að þetta hafi ekki verið uppfyllt á Lundi?
„Við teljum að það megi gera betur.“
Hann segir að gerð hafi verið krafa um að farið yrði strax í úrbætur á tilteknum þáttum og verið sé að fylgjast með hvort breytingar séu gerðar.
„Við þurfum að heyra í starfsfólki hvernig verk hafa verið unnin svo við höfum eins glögga mynd af þessu og kostur er.“
Um 40 til 60 börn eru á leikskólanum Lundi, sem er sjálfstætt starfandi. Borgin fer með eftirlitsskyldu með öllum leikskólum í Reykjavík, þar á meðal Lundi. Helgi sagði í samtali við mbl.is um síðustu helgi að ekki hefðu áður borist ábendingar um starfsemi leikskólans sem starfræktur hefur verið í áratugi.