Landsréttur stytti dóm yfir einum sakborninga í skútumálinu svokallaða. Ákvað rétturinn að hæfilegur dómur yfir Henry Fleicher, 35 ára Dana, væri fjögur ár í stað fimm líkt og niðurstaðan varð í Héraðsdómi Reykjaness.
Fleicher er sakfelldur fyrir að hafa ásamt tveimur öðrum staðið að innflutningi á 157 kílóum af hassi um borð í skútu. Í héraðsdómi fékk Poul Frederik Olsen sex ára dóm og Jonas Rud Vodder 18 mánaða dóm fyrir hlutdeild sína.
Olsen og Fleischer sigldu frá Danmörku og að Íslandi þar sem efnin fundust í leynihólfi í skútunni. Þeir höfðu ætlað sér að koma efnunum til Grænlands en þeir eru af grænlenskum uppruna.
Ekkert varð af þeim áætlunum og voru þeir handteknir um borð í skútunni fyrir utan Reykjanes þann 24. júní.
Vodder flaug hins vegar frá Danmörku, þaðan sem skútan var sjósett, til Íslands, þar sem hann hafði fengið fyrirmæli um að kaupa búnað og vistir til verksins.