„Er í mínum huga engin frétt“

Vilhjálmur Birgisson.
Vilhjálmur Birgisson. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Í mínum huga er þetta engin frétt,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins og Verkalýðsfélags Akraness, um leynilega upptöku af syni Jóns Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, þar sem maður frá ísraelsku njósnafyrirtæki aflaði gagna um Jón í tengslum við hvalveiðar.

Vilhjálmur segir ekkert fréttnæmt í upptökunni vegna þess að stjórnsýslulög kveði á um að þegar Hvalur hf. eða aðrir sæki um hvalveiðileyfi komi það í hlut matvælaráðuneytisins að afgreiða slíka umsögn og hafi ráðuneytið visst langan tíma til þess.

„Þetta hefur ekkert með starfsstjórn að gera eða ríkisstjórn á hverjum tíma fyrir sig heldur er þetta bara leyfi sem er byggt út frá þeim lögum sem eru í gildi um hvalveiðar. Það eina sem er skýrt kveðið á um að þurfi að liggja fyrir er veiðiráðgjöf frá Hafrannsóknastofnun og ég vænti þess að hún liggi fyrir,“ segir Vilhjálmur.

Hann segir að það yrði hins vegar stórfrétt ef að núverandi matvælaráðherra ætlaði sér að feta í fótspor Svandísar Svavarsdóttur og Bjarkeyjar Olsen, fyrrverandi matvælaráðherra, og þverbrjóta stjórnsýslulög og stjórnarskrá Íslands eins og þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefði ályktað um varðandi það sem gerðist árið 2023.

Ber skylda til að afgreiða leyfið

„Það liggur alveg fyrir að matvælaráðuneytinu ber skylda til þess að afgreiða þetta leyfi og ég er mjög bjartsýnn á að svo verði. Það er mikilvægt að fólk átti sig á því að frá árinu 2010 hefur Hvalur hf. skilað í útflutningstekjur samkvæmt Hagstofunni 21 milljarði núvirt, sem þýðir að þessi fjárhæð verður eftir að stórum hluta hér í nærsamfélaginu okkar. Það er því um gríðarlega mikla hagsmuni að ræða,“ segir verkalýðsleiðtoginn.

Vilhjálmur segist mjög hugsi yfir því að erlendir öfgahópar séu að reyna að hafa áhrif á hvalveiðar á Íslandi.

„Það er skemmst að minnast þess hér um árið þegar erlendir aðilar hlekkjuðu sig uppi í mastri hvalveiðiskipanna og reyndu að koma í veg fyrir löglegar veiðar okkar Íslendinga. Ég er mjög hugsi yfir því líka þegar reynt er að hafa áhrif á lýðræðislega umræðu og nýtingarrétt okkar Íslendinga varðandi sjálfbærar veiðar. Hvað næst?“

Hollywood stjörnur-höfðu meiri áhyggjur af 160 langreyðum

Hann segir að ef Íslendingar standi ekki í lappirnar varðandi þær auðlindir sem þeir hafi aðgengi að og láti öfgahópa stoppa sig geti farið illa fyrir þjóðinni.

„Mér er það minnisstætt að í fyrra hótuðu einhverjar Hollywood-stjörnur verkfalli á Íslandi ef hvalveiðar yrðu leyfðar á nýjan leik. Á sama tíma og þær voru að hóta verkfalli kom fram að 4.638 börn hefðu dáið vegna skotvopna í Bandaríkjunum á síðustu tveimur árum. En Hollywood-stjörnurnar höfðu meiri áhyggjur af 160 langreyðum við Íslandsstrendur. Ég held að þetta fólk eigi að taka til í sínum eigin garði áður en það fer að skipta sér af öðrum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka