Fjölda flugferða aflýst í fyrramálið

Verklög Isavia eru að einhverju leyti viðbrögð við því að …
Verklög Isavia eru að einhverju leyti viðbrögð við því að farþegar hafi ekki komist frá borði í einhvern tíma sökum veðurs. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Að minnsta kosti sextán flugferðum hefur verið aflýst frá Keflavíkurflugvelli í fyrramálið sökum veðurs. Þá gæti enn fleiri flugferðum verið aflýst.

Á vef Isavia má sjá að flestar hinna aflýstu flugferða eru á vegum Icelandair og Play en þó er einu flugi á vegum SAS einnig aflýst.

„Það er út af veðri,“ segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, í samtali við mbl.is og heldur áfram.

„Við vorum með veðuraðgerðastjórnarfund um þrjúleytið í dag sem er yfirleitt haldinn þegar veðurspá gerir ráð fyrir að það verði þannig veður að það hafi áhrif á starfsemina á flugvellinum.“

Flugfélögin taki ákvarðanirnar

Segir hann fulltrúa Veðurstofunnar hafa farið yfir veðurspá, vindhraða og annað sem veðri morgundagsins tengist og hvenær það yrði sem verst.

„Á þessum fundum er síðan óskað eftir því að við fáum upplýsingar um hvernig flugfélögin ætli að bregðast við, þ.e.a.s. miðað við veðrið sem er spáð og þau áhrif sem það hafi á starfsemina á vellinum og síðan taka flugfélögin ákvarðanir sínar á grundvelli þess.“

Hann segir flugfélögin sjálf færa upplýsingar inn á vefsíðuna og hvort flogið verði á morgun eða hvort flugum verði aflýst. Nýjustu upplýsingar sé að finna þar.

Hvetja farþega til að fylgjast með

Má gera ráð fyrir að frekari flugferðum verði aflýst?

„Það getur vel verið að það sé eitthvað sem eigi eftir að fara þarna inn en það sem við segjum í texta á vefnum hjá okkur er að við hvetjum bara farþega til þess að fylgjast með komu- og brottfararsíðunni og náttúrulega bara fylgjast með veðurspá og svo fylgjast með upplýsingum frá sínum flugfélögum. Flugfélögin sjálf upplýsa að sjálfsögðu sína farþega um hverjar kunna að verða. 

Á endanum er þetta þannig að Veðurstofan gefur út veðurspána. Við upplýsum um það hvaða áhrif það veður sem er spáð hafi á starfsemina hjá okkur og síðan taka flugfélögin ákvarðanir sínar á grundvelli þess, hvort þau ákveði að fresta, aflýsa eða ekki bregðast við.“

Þá segir upplýsingafulltrúinn að ef vindhraði fer í 50 hnúta eða meira verði landgangarnir teknir úr notkun af öryggisástæðum.

Einnig séu ákveðin öryggisviðmið sem fylgja þurfi þegar kemur að stigabílum vallarins sem reknir eru af þjónustuaðilum flugfélaganna.

Verklag til að koma í veg fyrir að farþegar komist ekki frá borði

„Þetta verklag að halda þessa fundi og fara yfir málin og fá upplýsingar frá flugfélögunum. Þetta er verklag sem við erum búin að vera með í nokkur ár og eru náttúrulega að einhverju leyti viðbrögð við því að það hefur gerst að vélar hafi komið og lent þannig að farþegar hafi ekki komist frá borði í einhvern tíma út af veðri.

Þetta er bara leið til að bregðast við því og vinna saman með okkar flugfélögum að því að bregðast við í tíma þegar auðsjáanlegt er að veðrið hafi áhrif á starfsemina á vellinum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka