Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, segir 20 ára gömul nafnlaus bloggsíðuskrif Þórðar Snæs Júlíussonar, fyrrverandi ritstjóra Heimildarinnar, endurspegla ungan kjána og sperrilegg sem sé að reyna að vera töffari.
Henni sýnist þó Þórður Snær vera kominn „til vits“ og vonar hún að hann verði öflugur stuðningsmaður kvenfrelsis á Alþingi.
Þetta skrifaði Ingibjörg í athugasemd við færslu Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingarinnar, á Facebook þar sem bloggfærslur Þórðar Snæs voru umtalsefnið.
Þórður Snær, sem nú er í framboði fyrir Samfylkinguna í Reykjavíkurkjördæmi norður, hefur beðist velvirðingar á ummælum um konur sem hann lét falla á blogginu.
Kristrún sagði í færslu á Facebook í gær að skrif Þórðar endurspegli engan veginn stefnu flokksins en að hún telji rétt að gefa fólki tækifæri að bæta sitt ráð.
„Ég held að mörgum hafi brugðið við þessi skrif af því þau endurspegla viðhorf sem ekki eiga heima í Samfylkingunni,“ skrifaði Ingibjörg Sólrún í athugasemd við færslu Kristrúnar.
„Mest endurspegla þau þó ungan kjána og sperrilegg sem er að reyna að vera töffari. Ég hef kynnst mörgum slíkum í gegnum tíðina sem hafa hins vegar flestir komist til vits og áttað sig á eigin heimsku. Mér sýnist Þórður Snær hafa gert það og vona að hann reynist öflugur stuðningsmaður kvenfrelsis á Alþingi,“ sagði hún jafnframt í athugasemdinni.