BHM og BSRB lýsa yfir stuðningi við kennara

Kolbrún Halldórsdóttir, formaður BHM, og Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Kolbrún Halldórsdóttir, formaður BHM, og Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. Samsett mynd/Kristinn Magnússon

BHM - Bandalag háskólamanna og BSRB hafa lýst yfir stuðningi við baráttu Kennarasambands Íslands.

„Áherslumál kennarasambandsins snúa að virðismati starfsins, að kennarar fái sambærileg laun og aðrir háskólamenntaðir á vinnumarkaði,“ segir í yfirlýsingu BHM.

Kennarastéttin sé að stærstum hluta kvennastétt og laun séu almennt lægri í starfsgreinum þar sem konur séu í meirihluta. Þrátt fyrir lögbundna reglu um launajafnrétti sé enn glímt við talsverðan launamun.

„Kennarastéttin er ein af grunnstoðum samfélagsins og forsenda menntunar þjóðar. BHM stendur með traustri menntun, framtíðinni og kennurum!“

Ómissandi störf fyrir velferðarkerfið

„Kennarastéttin er að stórum hluta kvennastétt sem býr við kerfisbundið vanmat á störfum þeirra sem birtist í lægri launum þeirra samanborið við önnur störf sem telja má jafnverðmæt,“ segir í tilkynningu BSRB. 

Opinberir atvinnuveitendur hafi veitt sjálfum sér afslátt við launasetningu ómissandi kvennastétta, þrátt fyrir að velferðarkerfið byggi á þessum ómissandi störfum. 

„Þessu þarf að breyta og BSRB styður leiðréttingu launa kvennastétta og þar með viðurkenningu á verðmæti þeirra fyrir samfélagið allt.“

Sameyki og Fagfélögin hafa þegar lýst yfir stuðningi við kjarabaráttu KÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert