Minni tafir en í sambærilegum borgum

Að meðaltali tekur það 13 mínútur og 40 sekúndur að …
Að meðaltali tekur það 13 mínútur og 40 sekúndur að keyra 10 kílómetra á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Golli

Minni umferðartafir eru á höfuðborgarsvæðinu en í þremur sambærilegum borgum á Norðurlöndunum, eða Bergen, Árósum og Malmö.

Þetta kemur fram í greiningum sem Berglind Hallgrímsdóttir, samgönguverkfræðingur hjá Eflu, vann út frá fljótandi ökutækjagögnum (TomTom) sem sýna meðalferðatíma og meðalhraða á og utan háannatíma. Hún sagði frá þessu á morgunfundi Vegagerðarinnar þar sem umferðin og samgöngur á höfuðborgarsvæðinu voru til umfjöllunar.

Tæpar 14 mínútur að keyra 10 km

Á höfuðborgarsvæðinu eru ökumenn að meðaltali 13 mínútur og 40 sekúndur að keyra 10 kílómetra. Á háannatíma, árdegis og síðdegis, tekur það sjö til átta mínútum lengur að keyra 10 km.

Meðalhraðinn fyrir 10 km vegalengd á háannatíma nam 33 til 35 km/klst., sem er svipað og í hinum borgunum. Höfuðborgarsvæðið er í 281. sæti á heimsvísu þegar kemur að umferðartöfum en þar búa um 236 þúsund manns. Þéttleiki nemur 305 manns á hvern ferkílómetra en 1.857 manns á svæðum þar sem búið er að byggja, sem er engu að síður nánast tvöfalt minna en í hinum borgunum.  

Um 15 til 17 mínútur í hinum borgunum 

Í Bergen í Noregi búa 269 þúsund manns. Þar eru tæplega 3.000 manns á hvern ferkílómetra og er borgin í 240. sæti hvað umferðartafir varðar en Lundúnir eru þar í efsta sæti. Í Bergen tekur að meðaltali 14 mínútur og 50 sekúndur að komast 10 km. Á háannatíma tekur það 4 til 5 mínútum lengur.

Í Malmö í Svíþjóð, þar sem íbúarnir eru um 325 þúsund, nemur þéttleiki byggðar um 4.100 manns á ferkílómetra. Borgin er í 207. sæti á heimsvísu yfir umferðartafir. Þar er fólk að meðaltali 15 mínútur og 50 sekúndur að aka 10 km og 3 til 5 mínútum lengur á háannatíma.

Umferð á Miklubraut.
Umferð á Miklubraut. mbl.is

Í Árósum í Danmörku eru íbúarnir um 300 þúsund og nemur þéttleiki byggðar 3.250 manns á ferkílómetra. Borgin er í 156. sæti á heimsvísu þegar kemur að umferðartöfum og tekur það að meðtaltali 17 mínútur og 10 sekúndur að fara 10 km leið.

Tafir aukist á höfuðborgarsvæðinu

Fram kom í máli Berglindar að tafir hefðu minnkað á milli ára í Bergen en staðið í stað í Árósum og Malmö. Á höfuðborgarsvæðinu jukust þær aftur á móti. Nefndi hún í þessu samhengi að á höfuðborgarsvæðinu hefðu frá árinu 2016 verið 70 nýskráð ökutæki á viku.

Hún sagði þörf á fjárfestingum ef við vildum ekki halda áfram á sömu braut. „Kannski er einsleit fjárfesting ekki að fara að skila okkur miklu af því að nýtingin á innviðunum okkar í dag er ekki mjög góð,“ sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka