Deildarstjóri hjá Reykjavíkurborg vísar því á bug að borgin hafi hætt að tendra jólaljós fyrir utan skartgripaverslun Jóns og Óskars á Laugaveginum vegna þess að Jón Sigurjónsson gullsmiður hafi gagnrýnt borgina vegna skipulags- og bílastæðamála.
„Að sjálfsögðu notum við ekki jólaljós til að níðast á einhverjum,“ segir Hafsteinn Viktorsson, deildarstjóri á skrifstofu borgarlands, spurður út í málið.
„Þó að einhver sé óánægður með borgarstjóra eða einhverja stefnu í borginni í einhverjum málum þá er fólkið sem velur staðsetningarnar fyrir jólaskrautið ekkert að setja sig í þau mál,“ bætir hann við.
Hafsteinn segir jólaskreytingaplan Laugavegs vera um tíu ára gamalt, eða eftir að hún tók við því af Veitum, og að á þeim tíma hafi Laugavegurinn verið genginn og ákveðið hvaða tré skyldi skreyta. Metið var í samhengi við annað hvar ljósastaurar skyldu skreyttir og hvar þverbönd ættu að vera. Allt hafi þetta vera faglega metið.
Um aspirnar tvær sem um ræðir í fyrri frétt mbl.is um málið bendir hann á að ljósastaur með stauraskrauti, þ.e. kransi, hafi verið beint fyrir framan aðra þeirra. „Ég færi nú varla að setja seríu í samkeppni við þá skreytingu.“
Spurður út í ummæli um að rauðir krossar hafi verið settir yfir aspirnar og að skýr fyrirmæli hafi verið frá yfirmönnum um að sneiða hjá trjánum kveðst Hafsteinn hafa verið mjög hissa að heyra um krossana.
„Það eru engir rauðir krossar við tré en þau tré sem á að setja í eru merkt inn á með litlum jólatrjám,” segir hann og á þar við borgarvefsjá þar sem skipulag vegna jólaskrautsins er sett inn.
Hafsteinn nefnir að beiðnir um jólaskraut hafi verið mun meiri en borgin geti sinnt. Jólaskreytingar í miðbænum hafi samt aukist gríðarlega ár eftir ár. Jókust þær um 10 kílómetra í fyrra og þau að auki verða 10 kílómetrar af nýjum lýsingum í ár.
Fram kemur í upplýsingum frá Reykjavíkurborg að starfsfólk vinni hörðum höndum þessa dagana að því að klæða borgina í jólabúning og lagðir séu um 50 kílómetrar af jólaseríum með hátt í hálfa milljón ljósa.
Einnig prýði ýmsar gerðir af skrauti hátt í 300 ljósastaura og um 40 jólatrjám sé komið upp víðs vegar um borgina.
Á umræddu svæði á Laugaveginum séu margs konar skreytingar, bæði seríur í trjám og skraut í staurum, en ekki þannig að skraut sé í öllum trjám eða á öllum staurum. Þannig sé það víðar á Laugaveginum og annars staðar í miðbænum.