Spá illviðri víða um land á morgun

Gular og appelsínugular viðvaranir taka gildi á morgun.
Gular og appelsínugular viðvaranir taka gildi á morgun. Kort/mbl.is

Veðurstofa Íslands varar við illviðri víða um land á morgun og hefur verið gefin út gul og appelsínugul veðurviðvörun vegna hvassviðris og snjókomu.

Appelsínugular viðvaranir taka gildi klukkan 15 á morgun á Norðurlandi eystra, klukkan 17 á Austurlandi að Glettingi, klukkan 18 á Suðausturlandi og klukkan 20 á Austfjörðum. Á þessum svæðum verður norðvestan stormur eða rok með snjókomu. Annars staðar á landinu verða gular viðvaranir sem taka gildi snemma í fyrramálið.

Illviðrið kemur í skömmtum yfir allan daginn

Birgir Örn Höskuldsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir við mbl.is að gert sé ráð fyrir illviðri sem komi í skömmtum yfir allan daginn og fram á kvöld. Hann segir að það sé hlýtt í veðri í dag og hitinn hafi farið yfir 20 stig í hnúkaþey á Austurlandi en síðan snöggkólni í kvöld og í nótt.

„Fyrir hádegi á morgun verður hvasst og éljagangur á suðvesturhluta landsins þar sem getur orðið mjög blint í hryðjum þar sem vindhviður geta náð 30 m/s. Eftir hádegi skánar veðrið á suðvesturhluta landsins en þá fer að hvessa og snjóa á Norðurlandi og þegar fer að líða á síðdegið fer að hvessa fyrir austan og um kvöldið verður ansi hvasst þar og á Suðausturlandi,“ segir Birgir.

Hann segir að almennt verði veðrið orðið mun betra á laugardaginn og þegar líða fer á daginn verður það orðið skaplegt á öllu landinu. Dagana þar á eftir er spáð köldu veðri í norðanátt sem verður ekki hvöss og ekki með mikilli úrkomu.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka