Til stóð að Þórður Snær Júlíusson frambjóðandi Samfylkingarinnar myndi mæta í hlaðvarpið Ein pæling á morgun en hann hefur nú afboðað komu sína.
Þetta staðfestir Katrín Júlíusdóttir kosningastjóri Samfylkingarinnar í samtali við mbl.is.
Viðtalið var auglýst á samfélagsmiðlum í skamma stund í dag en auglýsingin hvarf skömmu eftir að hún var birt.
Spurð hvað liggi þar að baki segir Katrín margar ástæður vera fyrir því. Margt sé í gangi í kosningabaráttunni og því ekki óvenjulegt að breytingar verði á dagskrá eða að maður komi í manns stað.
Spurð hvort til greina komi að Þórður dragi sig í hlé segir Katrín yfirlýsingu Kristrúnar Frostadóttur standa. Hún ætli ekki að tjá sig frekar um það.
Inntur eftir viðbrögðum við afboðun Þórðar kveðst hlaðvarpsstjórnandinn, Þórarinn Hjartarson, skilja að Þórði hafi ekki endilega hugnast að mæta í þátt morgundagsins.
„En ég er andslaufunarmaðurinn þannig að kannski hefði ég bara verið besti maðurinn til að mæta,“ bætir hann við og skellir upp úr.
Þórður gekkst við því í síðasta þætti Spursmála að hafa ritað nokkuð ósmekklegar bloggfærslur á sínum yngri árum undir dulnefninu „þýska stálið“.
Hefur hann beðist afsökunar í kjölfarið og ítrekað að færslurnar sem voru ritaðar fyrir um 20 árum endurspegli ekki þann mann sem hann sé í dag.
Kristrún Frostadóttir formaður flokksins birti færslu um ummæli Þórðar í gær og sagði erfitt fyrir sig sem konu að lesa þau. Hún teldi þó rétt að gefa fólki tækifæri til að bæta ráð sitt og sýna það í verki.
Fyrir liggur að ekki er hægt að draga framboð til baka þegar utankjörfundaratkvæðagreiðsla er þegar hafin en frambjóðandi getur lýst því yfir að hann hyggist ekki taka sæti á þingi þó að hann hljóti kjör.