Vill auka orkuframleiðslu um 25% á áratug

Kristrún Frostadóttir vill auka raforkuframleiðslu um 25% á næsta áratugnum. Ákvörðunina þar um byggir hún á samráði við orkufyrirtækin í landinu.

Þetta kemur fram í viðtali við Kristrúnu í Spursmálum. Orðaskiptin þar um má sjá í spilaranum hér að ofan.

Hún segir að pólitíska leiðsögn hafi skort og að leyfisveitingaferli séu of flókin. Hún telur mikilvægt að fólk geti gert athugasemdir við fyrirhugaðar framkvæmdir en að ekki megi tefja framgang slíkra mála endalaust.

Hún telur raunhæft að ráðast í þetta mikla orkuöflun á næsta áratug jafnvel þótt Landsvirkjun hafi t.d. sýnt fram á að framkvæmdatími virkjana sé í núverandi kerfi í besta falli 12 ár.

Vantar pólitíska leiðsögn

„Okkur finnst eins og það hafi vantað pólitíska leiðsögn í þennan málaflokk. Við vitum alveg að orkueftirspurn er endalaus. Við erum bara með mjög góða vöru, mjög flotta útflutningsvöru.“

Hver er hin pólitíska leiðsögn?

„Hún er að skilgreina einhvern orkuvilja. Hún er að segja að við erum með einhverja atvinnustefnu. Við viljum að ákveðnar atvinnugreinar stækki og eflist. Við viljum byggja undir landeldi, við viljum byggja undir ákveðna verðmætasköpun, við viljum nútímaleg gagnaver, við viljum vera með græna iðngarða.“

Þið segið þetta og á grunni þess viljið þið 5 teravattstundir næsta áratuginn.

„Þetta var það sem var talið raunhæft. Bæði hvað varðar, Stefán, fólksfjölgun, varðandi hóflega aukningu sem þarf til bara almennra fyrirtækjanotenda.“

Ég veit hver þörfin er og ég held að flestir séu sammála um það. Og við erum með orkuspá, láspá, háspá, meðalspá. 5 teravattstundir, 25% aukning. Hvernig ætlar þú að ná þessu á 10 árum miðað við það hversu hægt framkvæmdir ganga? Hvaða virkjanir eða virkjanakostir munu skila þessu öllu?

„Það eru þættir sem hafa verið afgreiddir út úr nýtingarflokki rammaáætlunar sem þarf náttúrulega bara að klára.“

Hvaða kostir eru það?

„Hvammsvirkjun er t.d. vonandi að fara af stað.“

Það er dropi í hafið.

„Já, já. En það eru kostir þarna inni sem mér finnst bara mjög mikilvægt að komist til framkvæmda. Við erum líka með...“

Kristrún Frostadóttir er gestur Spursmála að þessu sinni.
Kristrún Frostadóttir er gestur Spursmála að þessu sinni. mbl.is/María Matthíasdóttir

Þrennskonar kostir

Hvaða kostir?

„Það eru jarðvarmakostir þarna inni, það eru vindorkukostir, það er vatnsafl. Ég meina við erum ekki að handvelja...“

Þarna nefnir þú þessar þrjár aðferðir sem við höfum til þess að framleiða orkuna. En ég er að spyra, 5 teravattstundir, það þarf að hefjast handa strax. Hvaða virkjanakostir eru þetta því ég held að fólk vilji vita þetta, ég var á Vestfjörðum í gær, það eru mjög skiptar skoðanir um virkjanakosti inni í Vatnsdal í Vatnsfirði, Hvalárvirkjun er umdeild. En þú segir, pólitísk leiðsögn, hver er hin pólitíska leiðsögn?

„Pólitíska leiðsögnin er sú að þegar búið er að afgreiða eitthvað í nýtingarflokki rammaáætlunar, það er búið að fara í gegnum þingið. Það þarf að tryggja að því sé fylgt eftir í leyfisveitingaferli sem er skilvirkt. Það sé haldið utan um að þetta taki ekki alltof langan tíma. Pólitíska leiðsögnin er fyrst og fremst að það séu búnir til ferlar, kerfi sem fólk treystir og að þeir séu kláraðir. Pólitíska leiðsögnin felst ekki í þvi, Stefán, að ég fari að fara inn í einhverja kosti sem eru í rammaáætlun, taki þá út fyrir sviga og knýi þá í gegn. Það er næg orka inni í rammaáætlun, það er næg orka í nýtingarflokki, mögulega þarf að endurskoða eitthvað og setja í nýtingarflokk en það mun ekki standa á Samfylkingunni að tryggja að við komumst áfram með þessi mál.“

Viðtalið við Kristrúnu má sjá og heyra í heild sinni hér fyrir neðan:

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert