Íslenska ríkið mun veita tímabundna fjárveitingu sem stendur undir greiðslum til Guðna Th. Jóhannessonar, fyrrum forseta Íslands, í prófessorsstöðu hans við Háskóla Íslands.
Greiðslur vegna þessa munu alls nema 110 milljónum króna. Þetta kemur fram í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar sem birt hefur verið á vef Alþingis.
Í álitinu segir að gert sé ráð fyrir að veitt verði tímabundin fjárveiting í fjögur ár vegna samkomulags við Háskóla Íslands til að styrkja prófessorsstöðu í sagnfræðideild við HÍ.
„Um er að ræða rannsóknastöðu sem fráfarandi forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, mun sinna. Heildarskuldbinding samkomulagsins er 110 m.kr. og eru árlegar greiðslur þannig: 26 m.kr. árið 2025, 27 m.kr. árið 2026, 28 m.kr. árið 2027 og 29 m.kr. árið 2028,“ segir í álitinu.