Samfylkingin mun sækjast eftir heilbrigðisráðuneytinu komi flokkurinn að myndun nýrrar ríkisstjórnar eftir kosningar. Fái þau ósk sína uppfyllta verður Alma Möller, fyrrverandi landlæknir, heilbrigðisráðherra. Alma er oddviti Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi.
Þetta kemur fram í nýjasta þætti Grjótkastsins þar sem Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, ræða við Björn Inga Hrafnsson fjölmiðlamann.
Alma var skipuð sem landlæknir af Svandísi Svavarsdóttur árið 2018 og var þá fyrsta konan til þess að gegna embættinu. Hún er flestum landsmönnum eflaust kunnug eftir kórónuveirufaraldurinn þar sem hún var hluti af þríeykinu svokallaða.
Í þættinum ræðir Kristrún um plan Samfylkingarinnar í heilbrigðismálum og segir að fáir séu með jafn mikla þekkingu og færni og Alma í heilbrigðismálunum.
„Hún er fáránlega fær og reynd kona sem getur mætt inn í heilbrigðisráðuneytið. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að það hefur aldrei einstaklingur með viðlíka menntun, þekkingu og hæfni og yfirsýn á kerfið komið þarna inn og hún getur virkilega tekið á málunum,“ segir Kristrún í þættinum.