Fátt um svör vegna Black Cube

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri og Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra á blaðamannafundi …
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri og Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra á blaðamannafundi í morgun. mbl.is/Karítas

Dómsmálaráðuneytið hefur ekkert gert í málinu sem kom upp á dögunum þegar Jón Gunnarsson þingmaður sagði ísraelska njósnafyrirtækið Black Cube hafa verið ráðið til að afla gagna um hann í tengslum við hvalveiðar og það tekið upp samræður við son Jóns, sem Heimildin gerði sér svo mat úr.

Spurð að loknum blaðamannafundi í morgun hvort ráðuneytið sé að gera eitthvað í tengslum við málið eða hvort það hafi einhver úrræði vegna þess svaraði Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra:

„Við höfum ekki gert það í þessari viku síðan þetta mál kom upp. Það er þá á hendi lögreglunnar hvort hún telur ástæðu til þess að bregðast við og ég hef ekki afskipti af störfum lögreglunnar.“

Sigríður Björk vildi ekki tjá sig

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri sagðist fyrr í vikunni ekki vera að rannsaka málið en að málsatvik yrðu könnuð.

Hún vildi ekkert tjá sig frekar um málið þegar eftir því var leitað í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert