Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur samþykkt að hefja frumkvæðisathugun á skipan Jóns Gunnarssonar í hlutverk sérstaks fulltrúa Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra í matvælaráðuneytinu.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, situr í nefndinni og lagði til að málið yrði tekið til athugunar.
Var það samþykkt af meirihluta nefndarmanna og mun nefndin því óska eftir öllum gögnum er varða aðkomu Jóns Gunnarssonar að verkefnum í matvælaráðuneytinu, þar með talið erindisbréf hans og upplýsingum um ráðningu hans.
Vísir greindi fyrst frá en í Facebook-færslu segir Þórhildur Pírata leggja mikla áherslu á gagnsæja stjórnsýslu og baráttu gegn spillingu.
Þeim renni því blóðið til skyldunnar þegar mál sem þetta komi upp, þar sem grunur er um misnotkun á valdi eða jafnvel mögulegt mútubrot.
„Frásögn Bjarna Benediktssonar um hlutverk Jóns innan ráðuneytisins hefur verið mjög á reiki og því finnst mér rétt að nefndin fái öll gögn sem tengjast því til sín til skoðunar,“ segir Þórhildur í færslunni.
Athugunin lýtur að ráðningu Jóns eftir að leyniupptökur af syni hans, Gunnari Bergmann, litu dagsins ljós. Í upptökunum ræðir Gunnar opinskátt um stöðu föður síns við mann sem hann taldi vera svissneskan fjárfesti sem vildi kaupa af honum fasteignir.
Fullyrti hann þar m.a. að faðir hans hefði samið við Bjarna um að taka sæti á lista Sjálfstæðisflokksins gegn því að Jón fengi stöðu í matvælaráðuneytinu.
Má einnig heyra Gunnar segja í upptökunni að faðir hans hafi ætlað sér að afgreiða leyfi til hvalveiða næstu árin sem ráðherrar Vinstri grænna hafi staðið í vegi til þessa.
Bjarni Benediktsson hefur tekið fyrir að um hafi verið að ræða vinagreiða, hann hafi einfaldlega óskað eftir liðsinni Jóns í ráðuneytinu. Hefur hann beint tilmælum til ráðuneytisstjórans að Jón kæmi ekki nálægt afgreiðslu hvalveiðileyfa.