Gæsluvarðhald framlengt og rannsókn á lokastigi

Frá rannsókn lögreglu á vettvangi í september.
Frá rannsókn lögreglu á vettvangi í september. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gæsluvarðhald yfir manninum sem grunaður er um að hafa banað dóttur sinni, hinni 10 ára gömlu Kolfinnu Eldeyju Sigurðardóttur, hefur verið framlengt um fjórar vikur.

Þetta staðfestir Eiríkur Valberg, lögreglufulltrúi hjá miðlægri deild lögreglunnar, í samtali við mbl.is en gæsluvarðhald yfir manninum átti að renna út í gær.

Stúlkan fannst látin við Krýsuvíkurveg þann 15. september síðastliðinn og var faðir hennar handtekinn við Krýsuvíkurveginn daginn sem líkið fannst. Hann hefur því verið í gæsluvarðhaldi í níu vikur en enginn getur setið lengur í gæsluvarðhaldi en tólf vikur ef ekki er gefin út ákæra.

Eiríkur segir að rannsókn málsins miði vel en eins og í málum sem þessum þá sé oft löng bið eftir gögnum eins og endalegri krufningsskýrslu, DNA-gögnum og sérfræðigögnum.

„Við teljum okkur hafa skýra mynd af því sem gerðist. Við getum ekki haldið manninum lengur en í tólf vikur án ákæru en við munum ljúka rannsókn málsins innan þess tíma,“ segir Eiríkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka