Mjög dýrt að tryggja landamærin

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri að loknum blaðamannafundinum í morgun.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri að loknum blaðamannafundinum í morgun. mbl.is/Karítas

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri segir landsáætlun um samþætta landamærastjórnun til næstu ára, sem hún kynnti á blaðamannafundi í morgun, vera dýrt verkefni.

Um er að ræða kröfur sem eru gerðar til Íslands vegna Schengen-samstarfsins og annarra alþjóðlegra skuldbindinga. Þessari stefnu er síðan skilað til Frontex, landamærastofnunar Evrópu.

Styrkir frá Schengen

Spurð að loknum fundinum í morgun hvort nægilegur mannskapur sé fyrir hendi og fjármagn til að framfylgja þessari stefnu segir Sigríður Björk að verkefnið sé dýrt en að Ísland fái talsvert af styrkjum úr sjóðum Schengen til að geta staðið undir sínum skuldbindingum.

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra og Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri kynntu aðgerðirnar.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra og Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri kynntu aðgerðirnar. mbl.is/Karítas

„Við erum að fá starfsmenn og styrki til þess að geta sinnt þessum verkefnum og það er verið að bæta aðeins í landamærin. Það er verið að setja fjármagn á Norðurland eystra og fleiri staði en þetta er hins vegar mjög dýrt verkefni að tryggja landamærin,“ greinir hún frá og nefnir að það hvernig stjórnvöld ætli að fjármagna þetta velti líklega á næstu ríkisstjórn.

Þarf að hindra skipulagða glæpi

Innt eftir því hvort aðgerðirnar sem dómsmálaráðherra hefur boðað á landamærunum séu harðar segir Sigríður Björk verkefnið hafa verið í vinnslu í langan tíma og verið í umræðunni. Meðal annars hafi verið rætt um andlitsgreiningu og hvernig skyldi framkvæma hana.

„Hvernig vinnum við sem best innan Schengen-samkomulagsins þar sem við tryggjum örugga umferð en reynum að hindra skipulagða brotastarfsemi sem flæðir yfir landamærin? Það er bara gert með erlendu samstarfi og nánast öll okkar verkefni eru með alþjóðlegan vinkil,“ svarar Sigríður Björk.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri. mbl.is/Karítas

„Betur má ef duga skal“

Meðal annars vonast hún til að landsáætlunin, sem gildir til ársins 2028, þjappi fólki saman hér á landi sem er að starfa að málefnum sem tengjast landamærunum. „Það er mjög mikilvægt að við séum að vinna eftir sömu aðgerðaáætlun og við höfum öll komið að því að móta hana,“ bendir hún á. „Ég hef trú á því að þetta virki og ég sé að það er verið að gera marga hluti sem eru mjög jákvæðir.“

Hún segir tækjabúnað hafa verið bættan og landamærastöðvar styrktar.

„En betur má ef duga skal og þetta er ekki bara hér, þetta er allsstaðar í Evrópu, þetta er umræðan hvert sem þú ferð og það eru nákvæmlega sömu áskoranirnar. Að sjálfsögðu reynum við að vinna eins vel innan þess ramma sem okkur er gefinn og hægt er,“ segir Sigríður Björk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert