Óeðlilegt að sama gjald verði tekið óháð þyngd

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB.
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB. mbl.is/Árni Sæberg

Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) telur eðlilegt að fresta setningu laga um kílómetragjald fram yfir áramót. Telur félagið frumvarpið ekki hafa verið fullklárað, þörf sé á að móta það og þróa betur.

Þetta staðfestir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, í samtali við mbl.is.

„Það er eðlilegra að gefa lengri tíma þegar svona miklar og stórvægilegar breytingar eru á döfinni heldur en að hrinda einhverju í framkvæmd með þessum hætti.“

Félagið gerir sérstaklega athugasemdir við að sama gjald verði á allar bifreiðar óháð þyngd þeirra og telur eðlilegt að um einhverja þrepaskiptingu verði að ræða.

Hygli mengandi og þyngri ökutækjum

Runólfur segir frumvarpið hygla ökutækjum sem menga meira og eru þyngri öfugt við stefnumörkun stjórnvalda um orkuskipti í samgöngum.

„Það var hækkun á umhverfismildari bíla og léttari bíla á móti lækkun á þyngri, orkufrekari bíla og meira mengandi.“

Þannig telur félagið ekki nægilega góðan samanburð hafa verið gerðan á milli kerfanna tveggja í vinnslu frumvarpsins.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Treystir ekki fákeppni á olíumarkaði

FÍB gerir þá alvarlegar athugasemdir við að ekki hafi verið búið að leggja nein áform upp um það hvernig ætti að fylgja eftir að veruleg lækkun á gjöldum á eldsneyti myndi skila sér til neytenda. Af fenginni reynslu segir Runólfur félagið hafa áhyggjur af því enda olíumarkaðurinn á Íslandi fákeppnismarkaður.

Runólfur segir gert ráð fyrir í frumvarpinu að fyrir bílaleigubíla og bíla erlendra ferðamanna verði möguleiki á föstu gjaldi á dag en félagið telji eðlilegt að miða við notkun og akstur.

„Þá væri lesið á öll ökutæki sem kæmu inn í landið og aftur þegar þau færu landi og þá væri reikningurinn gerður upp.“

Félagið hlynnt hugmyndafræðinni

FÍB er þó að sögn Runólfs hlynnt því að gjaldtaka á ökutækjum miðist við notkun og slit á innviðum.

Þá telur félagið að öðrum gjöldum eins og bifreiðagjaldi ætti að koma inn í kílómetratöluna.

Bifreiðagjöld eru ósanngjarn skattur að mati Runólfs því þar leggst á eitt gjald óháð akstri á bifreiðum. Segir hann eðlilegt að spyrða bifreiðagjöldin við kílómetragjaldið.

„Við gerðum tillögu um það upphaflega fyrir rúmlega einu og hálfu ári síðan og lögðum þá út reikniformúlu fyrir því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert