Eftir að fór að kólna í veðri á landinu í nótt er hálka á mörgum vegum og óvissustig er í gildi þar sem getur komið til vegalokana með stuttum fyrirvara.
Á vef Vegerðarinnar, umferdin.is er óvissustig til að mynda í gildi á Mosfellsheiði, í Þrengslum og á Hellisheiði frá klukkan 7 til 11 en hálka og hálkublettir eru á þessum vegum.
Á vegum á Vestfjörðum er óvissustig og víða eru vatnsskemmdir á vegum eftir mikla rigningu undanfarna daga. Til lokana getur komið með skömmum fyrirvara.
Á Öxnadalsheiði eru vegfarendur beðnir að aka með gát þar sem kyrrstæður bíl er á miðjum veginum. Óvissustig er á veginum frá kl. 12:00, þá getur komið til lokana með stuttum fyrirvara. Sama má segja um vegina yfir Víkurskarð, Vatnsskarð og Þverárfjall.
Gular og appelsínugular veðurviðvaranir Veðurstofunnar eru í gildi fyrir mestallt landið í dag.