Upphaf þjóðgarðs verði í Ólafsdal

Reisuleg bygging á einstökum minjastað við afskekktan fjörð.
Reisuleg bygging á einstökum minjastað við afskekktan fjörð. mbl.is/Sigurður Bogi

Margir spennandi möguleikar til vaxtar og sóknar geta falist í því að stofna þjóðgarð í Ólafsdal við Gilsfjörð. Þetta segir Eyjólfur Ingvi Bjarnason, fulltrúi í sveitarstjórn Dalbyggðar, hvar tillögur um þjóðgarð verða nú teknar til umræðu.

Starfshópur á vegum umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins kynnti á dögunum hugmyndir sínar um eflingu byggðar í Dalabyggð með tilliti til þeirra málaflokka sem ráðuneytið sinnir. Meðal annars er lagt til að leggja nýjan rafstreng frá Stykkishólmi í Dali og tryggja þannig betri flutningsgetu raforku á svæðið. Einnig að stutt verði við græna atvinnuuppbyggingu á svæðinu með átaksverkefni í jarðhitaleit.

Höfuðból á Skarðsströnd. Sama ættin hefur setið hér um aldir …
Höfuðból á Skarðsströnd. Sama ættin hefur setið hér um aldir alda. mbl.is/Sigurður Bogi

Tenging við nærsamfélagið er mikilvæg

Af því sem starfshópurinn kynnti vekur þjóðgarðshugmyndin mesta athygli. Þar er lagt til að byrjað verði smátt; það er í Ólafsdal sem er innarlega í sunnanverðum Gilsfirði. Í kynningu er greint frá að staðurinn sé einstakur með tilliti til landbúnaðar- og atvinnusögu Íslands. Þar starfrækti Torfi Bjarnason fyrsta bændaskóla á Íslandi á árunum 1880-1907 og frá þeim tíma eru ýmsar minjar á svæðinu.

Þá hafa í fornleifauppgreftri í Ólafsdal fundist ýmsar merkar minjar; meðal annars landnámsskáli frá 10. öld. Þessi sögulegi arfur sé nokkuð til að byrja á; og svo megi alltaf stækka þjóðgarðinn út í samræmi við aðstæður og áhuga.

„Þjóðgarður og starfsemi hans þarf að hafa góða tengingu við nærsamfélagið og atvinnuhætti þess. Ég tel reyndar að þarna verði vel fyrir slíku séð,“ segir Eyjólfur Ingvi. Ferðaþjónusta sé vaxandi vegur í Dölum og þar geti þjóðgarður verið aðdráttarafl, enda séu góðir innviðir með gönguleiðum og slíku byggðir upp á svæðinu. Annars sé landbúnaður mikilvægur þáttur í atvinnulífi í Dölum, þá einkum sauðfjárrækt. Mikilvægt sé að tillit sé tekið til þess meðal annars í friðlýsingarskilmálum þjóðgarðs svo allir geti unað við sitt.

„Þjóðgarði þurfa ekki endilega að fylgja stíf boð eða bönn. Alltaf má fara milliveginn og ná sátt um hlutina. Ég hugsa til dæmis að afurðir bænda á svæðinu gætu út á þetta fengið kynningu og orðið virðismeiri. Enda er hér gósenland,“ segir Eyjólfur Ingvi.

Nánar í Morgunblaðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka