Deilt um holdafar sýningarhunds

Tíkin var af tegundinni Pembroke Welsh Corgi.
Tíkin var af tegundinni Pembroke Welsh Corgi. Samsett mynd/mbl.is/Karítas/wikipedia

Héraðsdómur Reykjaness hefur sýknað hundaræktanda af kröfum konu vegna deilna þeirra á milli um holdafar ættbókarfærðar sýningarhunds. Konan, eða stefnandinn, gerði kröfu um að hundaræktandinn, eða stefnda, greiddi henni sem nemur 4.166.725 krónur í miskabætur.

Stefnda og stefnandi skrifuðu undir fóðursamning fyrir tveggja ára Pembroke Welsh Corgi-tík og tók stefnandi þá við tíkinni.

Samkvæmt skilmálum fóðursamninga hefur sá sem lætur hundinn af hendi enn tilkall til hundsins, til að mynda, til þess að sýna hann á hundasýningum.

Stefnda tók fram að um sýningarhund væri að ræða og þess vegna þyrfti að gæta að holdafari hundsins. Að mati stefndu hugaði stefnandi ekki nægilega vel að þyngd hundsins sem stefnda ætlaði að láta keppa á hundasýningum.

Deilt um fjárhagslegt virði hundsins

Samkvæmt dómi hafði lögmaður stefnanda samband við stefndu vegna áhyggna stefnanda af hundinum og vegna þess að stefnda á að hafa reynt að taka hundinn frá sér án samþykkis frá stefnanda.

Lögmaðurinn lagði þá til að fóðursamningi yrði sagt upp og að gerður yrði kaupsamningur um hundinn í staðinn.

Lögmaður stefndu svaraði bréfi lögmanns stefnanda og minnti á að ágreiningur á milli aðila snerist um að hundurinn væri orðinn of feitur og að hann gæti ekki tekið þátt í komandi hundasýningu í því standi.

Lögmaðurinn lagði þá til þrjá kosti: Að rifta fóðursamningi og að stefnendum yrði gert að skila hundinum gegn greiðslu fyrir fóður í sjö mánuði eða 60.000 kr.

Að stefnandi myndi kaupa hundinn á innflutningsverði eða einni milljón króna og að stefnda, ræktandi hundsins, fengi eitt got.

Eða að samningi yrði haldið áfram óbreyttum og að stefnandi sæi til þess að hundurinn léttist og yrði í ástandi til sýninga og keppna.

Þessu svaraði lögmaður stefnenda sem sagði það ekki standast skoðun að hundurinn væri orðinn of feitur og að um væri að ræða hugrænt mat á hugtakinu.

Þess í stað lagði lögmaðurinn til að kaupsamningur um hundinn yrði gerði og að stefnandi myndi greiða 100.000 krónur fyrir hann. Stefnda gæti valið einn hvolp úr næsta goti hundsins.

Þannig héldu deilur um hundinn áfram í ákveðinn tíma og náðu ákveðnu hámarki á hundasýningu í byrjun mars.

Varð til orðasenu á hundasýningu

Stefnandi mætti með hundinn á hundasýningu þar sem stefnda afhenti honum yfirlýsingu um riftun fóðursamnings og síðar afhenti dóttur sinni hundinn.

Úr varð orðasenna á milli stefnanda og dóttur stefndu um hundinn og var lögregla kölluð til. Engin gögn liggja fyrir um orðasenu þá hjá lögreglu.

Aftur á móti gerði Hundaræktunarfélag Íslands umsögn um umræddan hund þar sem hann er sagður of þungur og að hann þurfi á megrun að halda.

Að sama skapi segir vottorð frá dýralækni hið sama, að hundurinn sé of þungur eða 13 kg.

Dómurinn bendir á í niðurstöðu sinni að til úrlausnar sé eingöngu skaða- og miskabótakrafa stefnanda á hendur stefndu en ekki gerð krafa um að dómurinn leysi úr því hvort samningi aðila hafi verið rift með ólögmætum hætti eða ekki.

Að því leytinu til var málið dæmt stefndu í hag og stefnanda gert að greiða henni 1.700.000 kr. í málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert