Einkennilegt að vera með „örhóp“ í verkfalli

Jón Pétur Zimsen.
Jón Pétur Zimsen.

Jón Pétur Zimsen,  aðstoðarskóla­stjóri Rétt­ar­holts­skóla og frambjóðandi á lista Sjálfstæðisflokksins, segir það „einkennilegt að kennarar velji að vera með örhóp í verkfalli nema að markmiðið sé að draga deiluna á langinn“.

Í Facebook-færslu tjáir Jón Pétur sig um verkfallsaðgerðirnar sem hófust 29. október. 

Hann segir að er kennarar fara í verkfall bitnar það mest á börnum og foreldrum þeirra, „og svo þeim sjálfum en viðsemjandinn fær pening í kassann fyrir laun sem ekki eru greidd á meðan verkfalli stendur“.

Mat Jóns Péturs er því að kennarar ættu að fá laun þar sem „óháður“ aðili, t.d. með því að kjaradómur ákveði laun þeirra „til að forðast stöðu eins og er uppi núna“.

Markmið allra að verkfallið sé sem styst

„Það hlýtur að vera markmið beggja aðila, sveitarfélaga og kennara að verkfallið verið sem styst. Harðar aðgerðir eru líklegri til að knýja fram niðurstöðu hratt en veikar. Sagan sýnir að sveitarfélögin og stjórnmálamenn láta lítið á sig fá nema að ALLUR almenningur öskri að nú sé nóg komið.“

Jón Pétur segir því einkennilegt að verkfallsaðgerðirnar nái ekki til stærri hóps, en sam­tals hafa verið boðaðar verk­fallsaðgerðir í 13 skól­um.

„Það þýðir að þessi þriðji aðili, börn og foreldrar, þurfa að bera mestar byrðar og færa mestar fórnir í formi tapaðs náms, verri líðan, vinnutaps og örvinglan.“ 

Álagið óréttlátt

„Nú er örhópur í samfélaginu sem er á milli steins og sleggju. Hann reynir og reynir að segja frá að það sé verkfall í gangi sem kosti hann stórkostlega mikið því að börn þeirra fá ekki að mæta í skólann. Að fá ekki að mæta í skólann er hörmung enda gegna skólar algeru lykilhlutverki í samfélaginu á margan hátt,“ segir í færslunni. 

Jón Pétur segir að „siðleysi“ sé í gangi sem bitni á þessum örhóp. 

„Álagið sem þessi örhópur lendir í er svo óréttlátt að engu tali tekur. Eitt barn/ungmenni sem tapar tækifærum eða skaðast vegna þessa verkfalls er einu barni/ungmenni of mikið, ábyrgðin er mikil.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka