Á borðinu fyrir framan Emil Hjörvar Petersen liggur hár bókastafli en Emil hefur verið afkastamikill höfundur síðasta áratug. Á þessu ári einu hafa komið út tvær skáldsögur eftir hann: Skuld, sem er lokabók í fjögurra bóka flokki sem nefnist Handan hulunnar, og Náttfarar, lokabókin í hrollvekjuþríleiknum Myrkvaverk.
Meirihluti bóka Emils hefur komið út á prenti og flestar má finna á Storytel. Fantasíur og hrollvekjur fyrir fullorðna er bókmenntaformið sem Emil hefur valið sér, stundum með glæpaívafi.
„Ég set allt mitt í verkið. En í gegnum þessi fimm ár sem ég vann með Storytel hef ég tekið að mér önnur verkefni, eins og fyrir Sagafilm og Skybound Entertainment, sem eru sameinuð. Það er það stærsta sem hefur gerst á mínum ferli. Skybound er alhliða útgáfufyrirtæki sem vinnur náið með fólkinu sem skapar efnið. Þau standa til dæmis á bak við zombíþættina The Walking Dead,“ segir Emil, en þættirnir verða unnir upp úr þríleik hans, Sögu eftirlifenda, en þar segir frá ásunum sem lifðu af ragnarök og baráttu þeirra í heimi sem þeir misstu tökin á.
„Þeir sem lifa af eru allir svo sérstakir. Ég byrjaði á þessu með rithöfundardrauma og lét mig dreyma um að ef ég gerði þetta vel yrði þetta kannski einhvern tímann stærra,“ segir Emil og segir drauminn hafa ræst.
„Nú er Skybound að þróa sjónvarpsþætti upp úr þríleiknum og þegar það fer alla leið verður eitthvað meira,“ segir Emil, en hann hefur hjálpað til við þróunina.
„Þetta lítur vel út. Svo hef ég líka verið að skrifa handrit fyrir Sagafilm, auk þess að ritstýra öðrum höfundum.“
Eru fantasíubókmenntir að verða vinsælli með árunum?
„Já, og það er það sem ég hafði trú á og ég sé breytingar. Fyrsta skáldsagan mín kom út 2010 og þá fékk ég stundum að heyra að fantasía myndi ekki virka á Íslandi, en við erum nokkur sem höfum enst í þessu og fengið tækifæri til að þróa okkur og verða betri og betri. Það var engin hefð hér fyrir svona bókmenntum hér á landi og við höfum þurft að finna nýtt tungutak. Við skrifum bækurnar á vandaðri íslensku og oft leitum við uppi orð sem eru fallin úr notkun,“ segir Emil.
„Upplifun mín er sú að allir sem byrja á seríunni um Bergrúnu og Brá verða alveg helteknir. Það var beðið eftir Skuld og aðdáendahópurinn hafði stækkað,“ segir hann, en Skuld kom út nýlega hjá Króníku á prenti og sem hljóðbók á Storytel.
„Fleiri og fleiri taka fantasíuna í sátt og geta sökkt sér ofan í svona sögur án þess að finnast þær ótrúverðugar. Nördaáhugamál, svokölluð, eru ekki á jaðrinum lengur.“
„Ég tekst á við áskoranir og það fleytir mér í gegnum daginn,“ segir Emil, en eins og fyrr segir kláraði hann tvær skáldsögur á þessu ári, Náttfara og Skuld.
„Fantasían er háð skáldsagnarforminu og endurvinnur þjóðsögur og goðsögur á svo áhugaverðan hátt. Það er rosaleg gróska og frumleiki í gangi í dag. Fantasían er ekki bara um álfa og tröll heldur oft speglun á samfélaginu,“ segir Emil.
„Með list afbyggjum við veruleikann til að sjá hann í nýju ljósi. Fantasían tekur þetta aðeins lengra og bregður á leik,“ segir Emil og nefnir að fólk sogist oft inn í sögurnar þótt þær séu ekki í takt við raunveruleikann.
„Ef vel er gert þá gengst lesandinn við verkinu á þeim forsendum sem verkið er og lögmálum þess meðan á lestri stendur. Að skrifa svona skáldskap krefst þess að maður dansi á línu; að gæta þess að upplifunin rofni ekki, að sagan verði ekki ótrúverðug eða hallærisleg. Ég vinn mikið með að viðhalda þessari upplifun og það er vandmeðfarið. Svipað er með hrollvekjuna; ætlarðu að hræða lesandann eða kasta til hendinni og hætta á að hann láti frá sér bókina? Maður þarf að halda í spennuna og trúverðugleikann,“ segir Emil og er spenntur að skrifa fleiri fantasíur.
„Þegar ég fæ frelsið til að skrifa fantasíur þá líður mér best og þá fer sköpunarkrafturinn á flug.“
Ítarlegt viðtal er við Emil Hjörvar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.