Íþróttagarpurinn Einar Hansberg Árnason hefur lokið vikulangri þrekraun sinni til vitundarvakningar Píeta-samtakanna.
Þegar blaðamaður náði tali af Einari hafði hann nýlokið þrekraun sinni og að eigin sögn á skýi:
„Líðan er dásamleg og maður er í augnablikinu á skýi,“ segir Einar sem hefur á liðinni viku klárað 465 umferðir á þrekhjóli, róðravél og á skíðavél, meðal annars, og farið 1.628 km í heildina í þágu sjálfsvígsforvarna. Þess má geta að hringvegurinn er 1.332 km.
Einar segir að aðrir hafi ákveðið að leggja málstaðnum lið og tekið þátt í þrekraunum samhliða Einari til að vekja athygli á málstað Píeta.
„Frá því að ég byrjaði vorum við með önnur tæki fyrir fólk sem vildi vera með og styðja (málstaðinn) og þau tæki fóru 8.298 km.“
Hann segir það sýna fram á hve miklu sé hægt að áorka í sameiningu frekar en upp á eigið eindæmi.
Einar gerir þetta í þágu sjálfsvígsforvarna og til að vekja athygli á starfi Píeta–samtakanna. Hann hefur sjálfur átt vini sem fallið hafa fyrir eigin hendi og er þetta ekki fyrsta sinn sem hann reynir við slíkt verkefni.
„Það er mikilvægt að við tölum um sjálfsvíg eins og þau eru, opið og heiðarlega, að við séum ekki að tala um þetta sem einhvers konar leyndarmál til að sussa niður. Það eru ekki skilaboðin sem við viljum senda þeim sem eru í þessum hugsunum og eiga í erfiðleikum og þjást í eigin huga,“ segir hann og heldur áfram:
„Og að sýna öðrum og sjálfum sér mildi og hlýju þegar illa gengur.“
Hægt er að heita á Einar með framlögum á söfnunarreikning Píeta samtakanna Kt. 410416-0690 - Reikn nr. 0301-26-041041.
Hjálparsími Píeta er opinn allan sólarhringinn í síma 552-2218. Við bendum einnig á Hjálparsíma Rauða Krossins 1717 en í neyðartilvikum skal ávallt hringja í 112.