Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók mann í hverfi 105 sem var að brjótast inn í bifreiðar. Maðurinn var einnig með fíkniefni meðferðis og svo kom á daginn að hann var sömuleiðis eftirlýstur. Var hann vistaður í fangaklefa.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu þar sem greint er frá verkefnum lögreglu frá klukkan 17 í gær til 05 í morgun.
Þá var lögreglu tilkynnt um umferðarslys þar sem ökumaður hafði misst stjórn á bifreið sinni í hverfi 104. Hann ók á kyrrstæða bifreið og var fluttur á slysadeild með sjúkrabifreið.
Í miðbænum var ekið á gangandi vegfaranda. Hann hlaut minniháttar meiðsli.
Í Árbænum var maður handtekinn vegna líkamsárásar og eignaspjalla. Hann var vistaður í fangaklefa.
Þá var annar maður handtekinn í Árbænum, en hann er grunaður um sölu og dreifingu fíkniefna. Gat maðurinn ekki framvísað skilríkjum og er hann grunaður um ólöglega dvöl hér á landi. Maðurinn var vistaður í fangaklefa.
Í Hafnarfirði var ökumaður handtekinn þar sem hann var undir áhrifum fíkniefna. Hann var einnig sviptur ökuréttindum og framvísaði fölsuðu ökuskírteini.