Flugslysaæfing var haldin á Keflavíkurflugvelli fyrr í dag. Alls tóku um 500 manns þátt í æfingunni sem er meðal stærstu hópslysaæfinga sem haldnar eru á Íslandi.
Flugslysaæfingar af þessu tagi eru haldnar á þriggja til fjögurra ára fresti á hverjum flugvelli á Íslandi þar sem boðið er upp á áætlunarflug.
Í tilkynningu frá Isavia segir að Isavia og samstarfsaðilar þeirra hafi haldið liðlega sjötíu flugslysaæfingar frá árinu 1996.
Unnið er í samstarfi við viðbragðsaðila á hverjum stað fyrir sig og eru þar á meðal, starfsmenn flugvallarins, almannavarnir, lögregla, slökkvilið, Landhelgisgæslan, sjúkraflutningsaðilar, starfsfólk sjúkrahúsa, björgunarsveitir, Rauði krossinn og rannsakendur.
Sem fyrr segir voru um 500 þátttakendur á æfingunni, en þar af voru um 100 sjálfboðaliðar sem léku slasaða.
Sett var á svið flugslys þar sem flugvél með eld í hreyfli hlekkist á við lendingu og brotlenti með þeim afleiðingum að eldur braust út í vélinni.
Kveikt var í bílflökum sem voru sett upp til að líkja eftir flugvélarbúk.
Sjálfboðaliðarnir sem léku slasaða voru farðaðir eins og þeir væru með áverka.
Allt var þetta gert til þess að líkja sem mest eftir raunverulegu slysi, segir í tilkynningu.
Í ár hafa, auk æfingarinnar á KEF, verið haldnar flugslysaæfingar á flugvellinum í Grímsey, á Gjögurflugvelli og Hornafjarðarflugvelli. Á næsta ári verða æfingar á flugvöllunum í Reykjavík, Vestmannaeyjum og á Þórshöfn.