Þrotabú krefur nemendur um milljónir

Eydís Lilja Guðlaugsdóttir, stundar nú nám í norska skólanum Pilot …
Eydís Lilja Guðlaugsdóttir, stundar nú nám í norska skólanum Pilot Flight Academy, sem er einnig með aðsetur í Texas. Samsett mynd/Aðsend

Fyrrverandi nemanda við Flugakademíu Keilis brá í brún er krafa barst í vikunni frá þrotabúi skólans upp á 2,4 milljónir króna fyrir tíma sem aldrei voru sóttir, vegna gjaldþrotsins.

„Fyrst hélt ég að þetta væri bara einhver villa, þetta hlyti að vera einhver misskilningur,“ segir Eydís Lilja Guðlaugsdóttir sem nú er búsett í Texas í Bandaríkjunum.

Hún segir allan bekkinn sinn í akademíunni hafa fengið sams konar kröfu frá þrotabúinu. Þau furði sig á kröfunni enda snúi þetta að fyrirframgreiddu fé nemendanna, en ekki skólagjöldum.

Féð hafi legið inni á notendareikningi í nafni nemenda og því alltaf verið skýrt að ekki væri um að ræða eiginlegt fé skólans

Fengu aldrei að nota inneignina

Forsaga málsins er sú að í september í fyrra var Flugakademíu Íslands, sem var dótturfélag Keilis, lokað eftir langvarandi rekstrarvanda.

Nemendur höfðu greitt fyrir bóklegt nám annars vegar og hins vegar var fyrirframgreidd verkleg þjálfun, eins konar kreditkerfi þar sem dregið var af upphæðinni fyrir hvern verklegan tíma sem nemandi sótti.

„Ég hefði skilið þetta ef þetta væri peningur sem við nemendur værum búnir að nota innan fyrirtækisins en þetta var bara upphæð sem beið á okkar nafni frá degi eitt sem við fengum aldrei tækifæri til að nota og þess vegna fengum við hana til baka,“ segir Eydís.

Flugskóli Reykjavíkur tók við bóklegri kennslu nemenda og afgreiddu Flugakademían og Flugskóli Reykjavíkur það fyrirkomulag sín á milli án aðkomu nemenda.

Fékk hálfri milljón of lítið endurgreitt

Heildarupphæð fyrir námið með allri verklegri þjálfun var 14,9 milljónir króna en Eydís kveðst hafa verið búin að greiða 8 milljónir. Innifalið í því hafi verið skólagjöld og svo fyrirframgreidd verkleg þjálfun.

Segir Eydís það ekki hafa verið auðvelt að knýja fram endurgreiðslu frá skólanum á sínum tíma. Hún hafi átt inni 2,9 milljónir þegar skólinn fór í þrot en fékk aðeins 2,4 milljónir endurgreiddar að lokum, án útskýringa.

Hún viðurkennir að það hafi verið vafasamt frá upphafi að leggja svo háar fyrirframgreiðslur inn á skólann

Fá sex daga til að greiða inn á þrotabúið

„Ég tók lán til þess að geta borgað, til þess að eiga inni fyrir verklega hlutanum eins og fleiri nemendur. Ég fór síðan í flugskóla í Noregi, Pilot, til þess að ljúka við atvinnuflugmannsréttindin,“ segir Eydís en skólinn er einnig með aðsetur í Texas.

Í bréfi skiptastjóra segir að endurgreiðslur til nemenda hafi skert greiðslugetu þrotabúsins verulega og að eftir sitji á fjórða tug kröfuhafa sem lýst hafi kröfum í búið. Þrotabúið gaf fyrrverandi nemendum skólans sex daga til að greiða fjárhæðirnar til baka eða eigi síðar en 19. nóvember.

Hún segir það alls ekki raunhæft fyrir námsmenn sem séu ekki í vinnu vegna náms og fái ekki full námslán og bendir á að flestir sæki nú flugnám annars staðar.

„Við nemendurnir erum ekki ábyrgir“

Hún segir samanlagt tap fyrirtækisins síðustu fimm ár hafa verið 520 milljónir og bendir á að áður en nemendum var tilkynnt um að í gjaldþrot stefndi hafi fyrirtækið þegar verið í 393 milljóna króna skuld.

„Við nemendurnir erum ekki ábyrgir fyrir skuld Flugakademíunnar, heldur stjórnendurnir og þeir sem reka fyrirtækið.“

Hún og samnemendur hennar hyggjast leita réttar síns með aðstoð lögfræðings, enda viti þau fæst hvernig þau ættu að safna slíkum upphæðum með svo skömmum fyrirvara.

„Þetta eru fjórir virkir dagar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka