Varð að gefa dálítið af sjálfum mér

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra.
Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

„Staðan var mjög alvarleg og mér fannst að ég yrði að gefa dálítið af sjálfum mér á þeirri stundu. Það var erfitt, maður er ekki róbót og ég gekk í gegnum tilfinningalegan skala í þessu öllu. Annað væri óeðlilegt. Ég ákvað að segja frá því í bókinni hvernig mér sjálfum leið og hvað ég var að hugsa fyrst ég var að skrifa um þetta á annað borð.“

Þetta segir Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins, en hann fer mjög ítarlega yfir aðdraganda sjónvarpsávarpsins 6. október 2008, sem óhætt er að kalla það frægasta í Íslandssögunni, í ævisögu sinni sem komin er út hjá Bjarti.  

Guð blessi Ísland!

Lokaorð ávarpsins, „Guð blessi Ísland!“, vöktu mikla athygli og flestir sem á horfðu muna líklega nákvæmlega hvar þeir voru staddir þegar þau féllu. Geir kveðst alls ekki hafa búist við að þessi orð yrðu svona fleyg og heldur ekki að þau yrði notað til að hæðast að honum og ávarpinu.

Geir býr sig undir sjónvarpsávarpið fræga 6. október 2008. ​
Geir býr sig undir sjónvarpsávarpið fræga 6. október 2008. ​ Mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Aðrir áttuðu sig hins vegar á alvöru málsins og að ég hafði sagt þetta í og með til að undirstrika hana og kunnu að meta það. Sjálfum fannst mér þetta falleg kristileg kveðja og vel við hæfi á þessari stundu, án þess að menn þurfi að leggja einhvern dýpri trúarlegan skilning í það. Markmiðið var að segja þjóðinni hversu alvarleg staðan væri orðin án þess að búa til örvæntingu. Bankarnir voru að falla, þó að við vonuðum enn á þessum tímapunkti að Kaupþing myndi lifa af. Okkar hlutverk var að gera allt sem í okkar valdi stóð til að ríkissjóður og þjóðarbúið færu ekki sömu leið. Það heppnaðist og það er það sem stendur upp úr þegar horft er til baka á þessa miklu atburði.“

Aðgerðir tókust mjög vel

– Núna, þegar þú lítur til baka, tókust þessar björgunaraðgerðir eins vel og hægt var við þessar aðstæður eða hefði verið hægt að gera eitthvað betur?

„Já, þær tókust vel og það er í raun það eina sem skiptir máli í dag. Hins vegar velti ég því fyrir mér hvort hægt hefði verið að taka öðruvísi á málum um Glitnishelgina en ég held að það hafi ekki verið. Auðvitað hefur maður brotið heilann um þetta aftur og aftur en niðurstaðan er alltaf sú sama – við gerðum allt sem hægt var.“

Ítarlega er rætt við Geir í Sunnudagsblaðinu. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert